Edda, hús íslenskunnar, hlaut Hönnunarverðlaun Íslands
Hönnunarverðlaun Íslands voru veitt við hátíðlega athöfn í Grósku 9. nóvember er þetta er tíunda árið í röð sem verðlaunin eru veitt. Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, tilkynnti heiðursverðlaunahafann í ár.
„Árið hefur verið mjög viðburðaríkt og það má með sanni segja að hönnun er að sækja í sig veðrið á öllum vígstöðum. Við sjáum mikla grósku og það er algjörlega frábært að fá að fylgjast með öllu því góða starfi sem er að eiga sér stað á þessum vettvangi,“ sagði ráðherra meðal annars þegar hún tilkynnti heiðursverðlaunahafann. Óskaði hún öllum tilnefndum og verðlaunahöfum innilega til hamingju.
„Hönnun er hreyfiafl framfara og ég er handviss um að ein sú mesta gróska sem við eigum eftir að sjá í íslensku atvinnulífi verður á vettvangi hönnunar.“
Heiðursverðlaun ársins
Menningar- og viðskiptaráðherra afhenti heiðursverðlaunin í ár. Heiðursverðlaunahafi Hönnunarverðlauna Íslands 2023 er Sigrún Guðjónsdóttir, betur þekkt sem Rúna, fyrir framlag sitt til leirlistar og brautryðjendastarf á því sviði hér á landi. Rúna er fædd árið 1926 og hefur verið brautryðjandi á sviði leirlistar hér á landi.
„Á meðan maður getur unnið er tilveran skemmtileg“ er haft eftir Rúnu sem segist lifa fyrir því að vinna.
„Lífsstarf Rúnu hverfist um hönnun, myndlist, handverk, kennslu og frumkvöðlastarf ásamt samstarfi við aðra listamenn, fyrirtæki og almenning. Í verkum hennar endurspeglast leikgleði og aðferðir Rúnu, sérkenni og auðþekkjanlegur stíll, hafa vakið forvitni og verið innblástur þeim sem á eftir henni komu í listsköpun og hönnun í leir,“ segir meðal annars í rökstuðningi dómnefndar.
Nánar má lesa um heiðursverðlaunahafann á vef Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs.
Staður ársins
Edda, hús íslenskunnar, eftir Hornsteina arkitekta er sigurvegari í flokknum Staður á Hönnunarverðlaunum Íslands 2023 fyrir einkennandi og áhrifamikil byggingu sem sameinar varðveislu og aðgengi almennings að íslenskum menningarverðmætum til framtíðar. Húsið var vígt þann 19. apríl síðastliðinn.
„Edda, nýtt hús íslenskunnar, er einkennandi og áhrifamikil bygging. Vandað er til verka af fagmennsku, listfengi og hugað að hverju smáatriði að innan sem utan. Sporöskjulaga formið og einstök áferð hið ytra gefur til kynna dýrmætt innihald. Byggingin stendur í grunnri spegiltjörn og að utan er hún klædd koparhjúp með stílfærðum afritum texta úr handritum, sem í senn skreytir veggina og vekur forvitni um það sem býr innan þeirra. Edda er bjart og opið hús þar sem fallegir inngarðar gefa innri rýmum andrúm og birtu,“ segir meðal annars í rökstuðningi dómnefndar.
Sjá einnig: Hús íslenskunnar heitir Edda
Verk ársins
Pítsustund eftir Fléttu og Ýrúrarí er sigurvegari í flokknum Verk á Hönnunarverðlaunum Íslands 2023 fyrir að vera frumlegt og gott dæmi um hvernig hönnun getur vakið fólk til umhugsunar með eftirminnilegri upplifun og áhugaverðri félagslegri tilraun.
Það var Halla Helgadóttir, framkvæmdastjóri Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs, sem veitti þeim Fléttu, Hrefnu Sigurðardóttur og Birtu Rós Brynjólfsdóttur og Ýrúrarí, Ýr Jóhannsdóttur, verðlaunin.
Besta fjárfestingin
Angústúra bókaforlag hlýtur viðurkenningu fyrir bestu fjárfestingu í hönnun á Hönnunarverðlaunum Íslands 2023. Bókaforlagið hefur frá upphafi átt í samstarfi við leiðandi hönnuði og átt sinn þátt í skrásetningu á hönnunarsögu landsins.
„Á skömmum tíma hefur Angústúra sett sterkan svip á bókaútgáfu á Íslandi með fjölbreyttri útgáfu bæði hvað varðar innihald og hönnun. Angústúra gefur út vandaðar íslenskar bókmenntir og þýðingar, þar sem rík áhersla er lögð á hönnun; skrásetningu íslenskrar hönnunarsögu, hönnunarrýni og þýðingar á erlendu efni tengdu hönnun,“ segir meðal annars í rökstuðningi dómnefndar.
Vara ársins
Loftpúðinn eftir Fléttu fyrir FÓLK Reykjavík er sigurvegari í flokknum Vara á Hönnunarverðlaunum Íslands 2023 fyrir að vera nútímalegir, einstakir og fallegir auk þess að vera frábært dæmi um nýskapandi hönnun með áherslu á hringrás. Stúdíó Flétta eru vöruhönnuðurnir Birta Rós Brynjólfsdóttir og Hrefna Sigurðardóttir.
„Loftpúðinn frá Stúdíó Fléttu er frábært dæmi um nýskapandi hönnun með megin áherslu á hringrás. Iðnaðarrusli sem áður var hvorki selt né nýtt er breytt í fjölnota púða sem eru 96% endurunnir. Hugað er að öllu ferli endurvinnslu, lítið átt við efniviðinn og auðvelt að skilja hráefnin í sundur þegar líftíma vörunnar lýkur,“ segir meðal annars í rökstuðningi dómnefndar.
Framúrskarandi nýleg verkefni
Hönnunarverðlaun Íslands eru veitt hönnuði, arkitekt, hönnunarteymi eða stofu fyrir framúrskarandi nýleg verkefni. Við val á verðlaunahöfum er leitað að verkefnum sem skara fram úr og geta staðið sem fulltrúar þess besta sem gert er á sviði hönnunar og arkitektúrs. Verkefnin endurspegla gæði og vera áhrifarík, fela í sér frjóa hugsun, snjalla lausn, vandaða útfærslu, áherslu á fagurfræði og fagmennsku í vinnubrögðum. Einnig er horft til hvort verkefnin séu notendavæn, nýskapandi og hafi jákvæð áhrif á lífsgæði, verðmætasköpun og sjálfbærni.
Hönnunarverðlaun Íslands eru unnin af Miðstöð hönnunar og arkitektúrs í samstarfi við Hönnunarsafn Íslands, Listaháskóla Íslands, Íslandsstofu, Samtök iðnaðarins, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og Grósku.