Hoppa yfir valmynd
13. nóvember 2023 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Rannsóknir og úttektir vegna stefnumótunar um framhaldsfræðslu

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, ásamt Berglindi Rós Magnúsdóttur, formanni samstarfshóps um heildarendurskoðun á framhaldsfræðslukerfinu; skýrsluhöfundunum Nichole Leigh Mosty, Hróbjarti Árnasyni og Ásgeiri Brynjari Torfasyni; og Gissuri Péturssyni, Huldu Önnu Arnljótsdóttur og Hildi Margréti Hjaltested úr félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu.  - mynd

Mat innflytjenda á eigin færni í íslensku og staða fullorðinna innflytjenda í framhaldsfræðslu er meðal efnis í þeim fimm úttektum og rannsóknum sem gerðar hafa verið vegna yfirstandandi stefnumótunar um framhaldsfræðslu hér á landi. Framhaldsfræðsla byggir á lögum frá 2010 og er ætluð fólki með stutta skólagöngu eða skerta möguleika til náms eða atvinnuþátttöku svo sem vegna íslenskukunnáttu eða mismikillar starfsgetu.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, skipaði í upphafi árs samstarfshóp um heildarendurskoðun á framhaldsfræðslukerfinu og hefur Berglind Rós Magnúsdóttir, prófessor á Menntavísindasviði Háskóla Íslands, leitt vinnu hópsins. Samhliða þeirri vinnu voru sett af stað fimm rannsóknarverkefni til að styðja við stefnumótunina.

Niðurstöður þeirra eru nú birtar hér á vef Stjórnarráðsins.

Mat innflytjenda á eigin færni í íslensku

Lara Hoffmann, Markus Meckl og Kjartan Ólafsson við Háskólann á Akureyri gerðu könnun á íslenskukennslu fyrir innflytjendur í framhaldsfræðslukerfinu sem höfðu sótt íslenskunámskeið. Meðal annars kom í ljós að um einn af hverjum tíu telur sig hafa mjög góða færni í íslensku. Um fimmtungur telur færni sína vera frekar eða mjög góða.

Í könnuninni kemur jafnframt fram að innflytjendur reyna almennt að nota íslensku í ýmsum aðstæðum. Þannig segja um 60% þeirra sem ekki telja sig hafa góða færni í íslensku að mjög eða frekar líklegt sé að þau noti íslensku í verslun. Mun lægra hlutfall gerir það hins vegar við meira krefjandi aðstæður, svo sem í læknisheimsóknum. Algengt er að innflytjendum sé svarað á ensku þegar þeir tala íslensku.

Úttekt á gæðamálum íslenskukennslu fyrir útlendinga

Ólöf Júlíusdóttir og Guðbjört Guðjónsdóttir hjá Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerðu úttekt á gæðamálum viðurkenndra fræðsluaðila sem sjá um íslenskukennslu fyrir fullorðið fólk með annað móðurmál en íslensku. Þær tóku viðtöl bæði við einstaklinga sem sótt höfðu íslenskunámskeið og fræðsluaðila.

Samkvæmt úttektinni þarf skýrari umgjörð um íslenskukennslu fyrir útlendinga. Meðal annars þarf að uppfæra námskrár og tengja betur við Samevrópskan tungumálaramma, endurnýja námsefni og skýra betur gæðakröfur til fræðsluaðila.

Jafnframt er talið mikilvægt að samræma kennslukannanir og tryggja fjölbreytni á meðal fræðsluaðila þannig að nemendur hafi tækifæri til að velja námskeið við hæfi.

Fullorðinsfræðsla meðal innflytjenda

Nichole Leigh Mosty gerði kerfisbundna greiningu á stöðu fullorðinna innflytjenda í fullorðinsfræðslu en oft er vísað til framhaldsfræðslunnar sem fullorðinsfræðslu. Hún dró saman niðurstöður úr íslenskum og erlendum rannsóknum.

Meðal þess sem fram kemur í greiningunni er að á Íslandi er einna hæsta hlutfall innflytjenda innan OECD sem er virkir þátttakendur á vinnumarkaði. Innflytjendur fá á hinn bóginn oft ekki starf í samræmi við menntun þeirra, starfa frekar í láglaunastörfum, hafa lægri tekjur en innfæddir og gegna síður stjórnendastöðum.

Fram kemur skýrt ákall frá bæði innflytjendum og fræðsluaðilum um betri gæði náms og námsgagna, aukið aðgengi að mati á fyrra námi og reynslu og að fjármagna þurfi kerfið betur.

Yfirlit yfir íslenskar rannsóknir og stefnuskjöl um málefnið

Hróbjartur Árnason, lektor á Menntavísindasviði Háskóla Íslands, rýndi í fyrirliggjandi innlendar rannsóknir og stefnuskjöl síðustu ára sem varða framhaldsfræðslu. Hann bendir á að áherslur eru annars vegar oftast lagðar á eflingu menntunarstigs þjóðarinnar og hins vegar á að mæta þörfum atvinnulífs eftir menntun sem eftirspurn er eftir á vinnumarkaði. Almennt sé ekki sérstaklega fjallað um innflytjendur og aðra hópa sem eru í hættu á jaðarsetningu.

Að mati Hróbjarts bendir greining á rannsóknum og samanburður við stefnuplögg og nýjan samfélagslegan veruleika til þess að næstu lög um framhaldsfræðslu þurfi að horfa víðar og ná til fleiri markhópa sem læra út ævina.

Heildarúttekt á starfsemi Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins

Ásgeir Brynjar Torfason vann heildarúttekt á þjónustusamningi ráðuneytisins við Fræðslumiðstöð atvinnulífsins árin 2016-2022.

Fram kemur að fjármögnun framhaldsfræðslukerfisins sé of takmörkuð miðað við fjölgun í þeim hópi fólks sem það á að þjóna. Fjölbreytni í framboði námskeiða tryggi ekki sjálfkrafa gæði náms og ekki liggi fyrir hvort námsframboðið innan kerfisins sé hið rétta.

Í greiningunni er bent á að áskoranir á vinnumarkaði, alþjóðlegar umbreytingar og þjóðhagslegir þættir kalli á stóreflingu framhaldsfræðslukerfisins. Menntunarstig, fjölbreytni og viðurkenning náms, ásamt uppbyggingu ævimenntunar í tengslum við mikla fjölgun fólks með erlendan bakgrunn kalli á samþættingu ólíkra áherslna fyrir sveigjanleika vinnumarkaðarins. Það þýði mikla fjárfestingu í þeirri menntun sem framhaldsfræðslan á að sinna. Fagmennska, stýring, eftirlit og eftirfylgni skipti þar miklu máli.

Grænbók og hvítbók

Rannsóknirnar og úttektirnar munu nýtast inn í vinnu ofangreinds samstarfshóps en hlutverk hans er meðal annars að greina stöðuna í málaflokknum með gerð svokallaðrar grænbókar sem inniheldur stöðumat og valkosti. Í kjölfarið mun hópurinn leggja fram tillögu í formi hvítbókar að heildstæðu kerfi í framhaldsfræðslu sem styrkir hana sem fimmtu stoð opinbera menntakerfisins hér á landi. Hópnum er enn fremur ætlað að veita ráðgjöf við gerð frumvarps til nýrra laga um framhaldsfræðslu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta