Framkvæmdir við gerð varnargarðs til verndar orkuverinu í Svartsengi hafnar
Framkvæmdir eru hafnar við byggingu varnargarðs til að verja orkuverið í Svartsengi fyrir hugsanlegum afleiðingum eldsumbrota. Ráðist er í gerð varnargarðsins samkvæmt ákvörðun Guðrúnar Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra og byggir ákvörðunin á heimild í lögum um vernd mikilvægra innviða á Reykjanesi. Ákvörðun var tekin í dag í kjölfar lögbundins samráðs og að fenginni tillögu ríkislögreglustjóra.
Orkuverið í Svartsengi sér um 30.000 manns fyrir hita og rafmagni og eru því gríðarlegir hagsmunir fólgnir í verndun þess.
Frumvarp Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra um vernd mikilvægra innviða á Reykjanesi var afgreitt sem lög á Alþingi skömmu fyrir miðnætti á mánudag. Markmið laganna er að verja mikilvæga innviði og aðra almannahagsmuni á Reykjanesi fyrir hugsanlegum afleiðingum eldsumbrota.
Með lögunum er þeim ráðherra sem fer með málefni almannavarna veitt heimild, að fenginni tillögu ríkislögreglustjóra, að taka ákvörðun um nauðsynlegar framkvæmdir í þágu almannavarna sem miða að því að koma í veg fyrir tjón á mikilvægum innviðum og að verja almannahagsmuni gegn náttúruvá sem tengist eldstöðvakerfinu á Reykjanesskaga.
Nauðsynlegar framkvæmdir eru skilgreindar sem uppbygging varnargarða, gerð varnarfyllinga yfir veitumannvirki og gröftur leiðarskurða. Áður en ákvörðun um nauðsynlegar framkvæmdir er tekin skal landeigendum, sveitarfélagi þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar, ráðherrum sem fara með skipulagsmál, náttúruvernd og ríkisfjármál auk tilgreindra lykilstofnana á þessu sviði veitt tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri.