Heimsþing kvenleiðtoga í Reykjavík
Heimsþing kvenleiðtoga, Reykjavík Global Forum, sem er orðinn fastur vettvangur alþjóðlegrar umræðu og tengslamyndunar um réttindi kvenna og kynjajafnrétti, hófst í Hörpu í gær en þinginu lýkur síðdegis í dag. Um 500 þátttakendur skráðu sig til leiks frá um 80 löndum, fimmtungur þeirra frá Íslandi.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tók þátt í umræðum við opnun þingsins. Þar ræddi hún m.a. um að þótt Ísland standi vel í alþjóðlegum samanburði sé mjög mikilvægt að halda baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna gangandi. „Við sáum það skýrt með hinni miklu þátttöku í kvennaverkfallinu að hér er enn verk að vinna, sérstaklega hvað varðar launajafnrétti og kynbundið ofbeldi.“
Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra tók þátt í umræðum um hlutverk karla í jafnréttisbaráttunni þar sem hann lagði áherslu á að karlar í áhrifastöðum beiti sér fyrir jafnrétti. „Á Íslandi hefur okkur tekist að stíga mikilvæg framfaraskref til hagsbóta fyrir samfélagið allt og ég mun áfram leggja mín lóð á vogaskálarnar til að við færumst nær markinu,“ segir utanríkisráðherra.
Meðal viðfangsefna ráðstefnunnar nú eru tækifæri og áskoranir stafrænnar tækni, þar á meðal gervigreind, friðhelgi einkalífs og áhrif upplýsingaóreiðu á lýðræði. Í sjötta sinn verður Reykjavíkurjafnréttisvísirinn kynntur á þinginu, þar á meðal brotagreining á Norðurlöndunum, sem skora almennt hærra í jafnréttismálum.