Áhersla á verkefni sem skila samdrætti í losun við úthlutun úr Loftslagssjóði
Loftslagssjóður hefur úthlutað 173 milljónum króna til 16 verkefna. Alls hlutu 14 nýsköpunarverkefni og 2 kynningar- og fræðsluverkefni styrk að þessu sinni, en þetta er í fimmta sinn sem úthlutað er úr sjóðnum.
Sérstök áhersla var lögð á verkefni sem skila samdrætti í losun á beina ábyrgð Íslands, en Ísland er skuldbundið til þess að ná verulegum samdrætti á beina ábyrgð Íslands fyrir árið 2030 skv. markmiðum Parísarsamkomulagsins.
Meðal þeirra verkefni sem hlutu styrk að þessu sinni eru endurnýttar rafbílarafhlöður sem blendingskerfi til rafmagnsframleiðslu, íblöndun rauðþörunga í fóður til að draga úr metanlosun mjólkurkúa og notkun plastúrgangs í stað jarðefnaeldsneytis í kísilmálms- og málmblendiframleiðslu.
„Ísland hefur undirgengist alþjóðlegar skuldbindingar í loftslagsmálum og það verkefni sem við stöndum frammi fyrir í nánustu framtíð er verulegur samdráttur í losun á beinni ábyrgð Íslands. Vegna þessa er sérstök áhersla lögð á að styðja við verkefni sem skila beinum samdrætti í losun á beinni ábyrgð Íslands. Grænt hugvit er lykillinn að velgengni í málaflokknum og þess vegna erum við að styrkja verkefni sem hjálpa okkur að ná tilsettum árangri. Ég óska styrkhöfum til hamingju og ég hlakka til að fylgjast með framgangi þessara verkefna,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.
Alls bárust 85 umsóknir í sjóðinn og stóðust 77 þeirra formkröfur. 58 umsóknanna voru vegna nýsköpunarverkefna og 27 vegna kynningar- og fræðsluverkefna. Sótt var alls um rúmar 746 milljónir króna og hlutu 18,8% þeirra sem sóttu um í sjóðinn styrk að þessu sinni.
Hlutverk Loftslagssjóðs er að styðja við nýsköpunarverkefni á sviði loftslagsmála og verkefni sem lúta að kynningu og fræðslu um áhrif loftslagsbreytinga. Loftslagssjóður heyrir undir umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið, en Rannís annast rekstur hans. Stjórn Loftslagssjóðs tekur ákvarðanir um úthlutanir í samræmi við reglur sjóðsins.