Hoppa yfir valmynd
16. nóvember 2023 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Styrkur á Degi íslenskrar tungu: Íslensk-pólsk veforðabók

Vinna við íslensk-pólska veforðabók stendur sem hæst hjá Árnastofnun og hafa 26.000 orð þegar verið þýdd úr íslensku á pólsku. Í tilefni af Degi íslenskrar tungu hefur Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, veitt stofnuninni 15 milljóna króna styrk til áframhaldandi vinnu við verkefnið. Árnastofnun hlaut einnig styrk í fyrra og gerði sá stuðningur stofnuninni kleift að ráða þýðendur til verksins. Verkið er nú um það bil hálfnað. 

Sárlega hefur vantað veforðabók sem þessa fyrir þann stóra hóp Pólverja sem sest hefur að hér á landi. Markmiðið er að styðja pólska innflytjendur til íslenskunáms og auðvelda þeim þannig inngildingu í íslenskt samfélag með því að bjóða upp á gjaldfrjálst, rafrænt og aðgengilegt hjálpartæki sem einnig mun nýtast nemendum í skólum. 

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra:

„Veforðabókin mun nýtast þeim ríflega 23.000 Pólverjum sem búa hér á landi. Íslenskan er lykill innflytjenda að samfélaginu og mikil vöntun hefur verið á veforðabók fyrir þann hóp sem hér um ræðir. Nú er hún í augsýn og það er fagnaðarefni.“

Guðrún Nordal, forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum:

„Við erum himinlifandi yfir að fá þennan styrk til orðabókarinnar og þökkum kærlega fyrir. Styrkurinn frá ráðuneytinu í fyrra gerði útslagið um að hægt væri að hefja vinnu við veforðabókina sem lengi hefur verið beðið eftir og okkur tókst að komast mjög langt. Við höfum verið svo heppin að fá til liðs við okkur öfluga pólska þýðendur, hér heima og í Póllandi. Nú sjáum við fram á að geta lokið orðabókinni.“

Að þýðingunni vinna Stanislaw Bartoszek, verkefnisstjóri pólska markmálsins hjá Árnastofnun, Aleksandra Maria Cieślińska, Emilia Mlynska og Miroslaw Ólafur Ambroziak sem öll hafa pólsku að móðurmáli og eru menntuð í íslensku við Háskóla Íslands. Þórdís Úlfarsdóttir er aðalritstjóri og Halldóra Jónsdóttir verkefnisstjóri.

Krótkie podsumowanie:

Trwają prace nad stworzeniem internetowego słownika islandzko-polskiego, który będzie bezpłatny i dostępny dla każdego. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, Minister Spraw Społecznych i Rynku Pracy, przyznał Instytutowi Arniego Magnussona dotację na ten cel. Słownik przygotowywany jest we współpracy ze Stanisławem Bartoszkiem i zostanie szczegółowo zaprezentowany po udostępnieniu go dla użytkowników.

Guðrún Nordal, forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta