Aukin áhersla á viðbrögð við netsvikum
Ráðherra netöryggismála hefur hafið vinnu sem felur í sér samræmd viðbrögð stjórnvalda við gífurlegri aukningu netsvika. Aðgerð þess efnis verður bætt í aðgerðaáætlun í netöryggismálum og gerð að forgangsverkefni innan háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins.
Um þessar mundir gengur holskefla netsvika yfir almenning með markvissum tilraunum til að fá einstaklinga til að veita öðrum aðgang að stafrænni þjónustu á borð við netbanka. Tilraunir til netsvika teljast sem netárásir og geta komið fram á ýmsa vegu. Svikin byggja á því að ná sambandi við einstakling, jafnan með tölvupósti, smáskilaboðum eða símtali, og veita þar rangar en þó trúverðugar upplýsingar sem verða þess valdandi að einstaklingurinn, í góðri trú, er blekktur til að nota rafræn skilríki eða aðrar auðkenningarleiðir.
Gripið verði til frekari ráðstafana til að sporna gegn aukningu netsvika
Þessi tegund netárása er ekki ný af nálinni. Magn netsvika síðustu misseri hefur þó stóraukist og eru netsvikin oftar en ekki svo vönduð að erfitt er að draga trúverðugleika þeirra í efa. Netöryggisráð telur því nauðsynlegt að stjórnvöld sem fara með forræði netöryggismála og Fjarskiptastofa, í samstarfi við dómsmálaráðuneytið og ríkislögreglustjóra, grípi án tafar til allra mögulegra ráðstafana til að sporna gegn þessari þróun.
Nú þegar beita Fjarskiptastofa og netöryggissveit stofnunarinnar, CERT-IS, ásamt fjarskiptafyrirtækjum og fleiri hagaðilum, ýmsum ráðstöfunum í þeim tilgangi að takmarka áhrif netsvika og má ætla að flestar tilraunir til slíkra svika séu stöðvaðar áður en þær ná til þeirra sem þeim er beint að. Þó er magnið og trúverðugleiki svikara á þann hátt að gera þarf enn betur.
Samræmdar og markvissar aðgerðir stjórnvalda nauðsynlegar
Ráðstafanir sem talið er að grípa þurfi til krefjast mögulega lagabreytinga og breyttra reglugerða auk samræmdra og markvissra aðgerða stjórnvalda og markaðsaðila. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ráðherra netöryggismála, tekur undir mat netöryggisráðs um að grípa þurfi hratt til árangursríkari aðgerða.
,,Fjöldi fólks hefur orðið fyrir fjárhagslegum eða öðrum persónulegum skaða af völdum netsvika. Þessu fylgir sú hætta að tiltrú almennings á öryggi stafrænnar þjónustu sem megin undirstöðu stafrænna umskipta bíði hnekki. Við því verður að bregðast og við skoðum hvaða leiðir eru til þess. En einnig þarf vitundarvakningu um að fólk tilkynni brotin og um mikilvægi þess að gæta sín. Það geta allir lent í þessu. Enn er komið í veg fyrir verulegan hluta netsvika með vörnum okkar, en þegar magnið eykst þá fjölgar líka þeim svikum sem ná til fólks.”