Stuðningur við Bergið
Bergið headspace fær styrk frá stjórnvöldum til að veita ungu fólki stuðning og ráðgjöf með áherslu á snemmtæka íhlutun til að stuðla að aukinni virkni og vellíðan. Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, undirrituðu samning þess efnis við Bergið í dag.
Horft er sérstaklega til þess að ungt fólk hafi greiðan aðgang að þjónustu þeim að kostnaðarlausu á þeirra forsendum. Samningnum er m.a. ætlað að brúa bilið yfir í aðra farsældarþjónustu fyrir börn og ungmenni, einkum ef þörf er á eftirfylgni til lengri tíma. Lágþröskuldaþjónusta með snemmtækri íhlutun er einnig talin geta haft jákvæð fyrirbyggjandi áhrif sem dregið geta úr líkum á óvirkni og örorku.
Stuðningur nemur allt að 50 m.kr., þar af greiðast 20 m.kr. frá mennta- og barnamálaráðuneytinu, 15 m.kr. frá félags- og vinnumarkaðsráðuneyti og 15 m.kr. frá heilbrigðisráðuneytinu.
Samningurinn er liður í aðgerðum ríkisstjórnarinnar með áherslu á eflingu forvarna og aukna velsæld og samþætta þjónustu í þágu farsældar barna. Snemmtæk íhlutun er ein öflugasta forvarnarleiðin og er í takt við meginmarkmið gildandi geðheilbrigðisstefnu, áætlanir um bætt geðheilbrigði og átak gegn skaða af völdum vímuefna.
Bergið er stuðnings- og ráðgjafasetur fyrir ungt fólk upp að 25 ára aldri. Markmið Bergsins er að bjóða upp á lágþröskuldaþjónustu með áherslu á stuðning, fræðslu og ráðgjöf. Stjórnvöld tóku þátt í samstarfi um stofnun og rekstur þverfaglegs móttöku- og stuðningsúrræðis fyrir ungt fólk árið 2019 og opnaði Ásmundur Einar Daðason, þáverandi félags- og barnamálaráðherra, Bergið í september sama ár.