Úkraína, ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs og Uppbyggingarsjóður EES til umræðu í Brussel
Samstaða með Úkraínu, ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs og staðan í viðræðum um næsta tímabil Uppbyggingarsjóðs EES voru í brennidepli á fundum utanríkisráðherra í Brussel í tengslum við fund EES-ráðsins í gær.
Ráðherra átti m.a. tvíhliða fund með Maros Sefcovic, varaforseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (ESB). Þá fundaði ráðherra ásamt Dominique Hasler, utanríkisráðherra Liechtenstein, og Espen Barth Eide, utanríkisráðherra Noregs, með ráðgjafanefnd EFTA og þingmannanefnd EFTA. Ráðgjafanefndin er mikilvægur vettvangur verkalýðsfélaga og atvinnurekendasamtaka, en með samstarfinu þjónar nefndin jafnframt sem tengiliður milli aðila vinnumarkaðarins í EFTA og ESB.
Á fundi með ráðgjafanefndunum leiddi Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra umræðu um mikilvægi þess að hafa áhrif á gerðir í mótun, snemma í löggjafarferlinu innan ESB.
„Það er mikilvægt að við stjórnmálamennirnir eigum regluleg skoðanaskipti á þessum vettvangi og leggjum línurnar fyrir samstarfið. EES-samningurinn er grundvallarmál þegar kemur að lífskjörum Íslendinga og því skiptir miklu máli að við gætum þess að halda á lofti okkar helstu áherslumálum snemma í ferlinu,” segir Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra.
EES-ráðið er pólitískur vettvangur EES-samstarfsins þar sem utanríkisráðherrar EFTA-ríkjanna innan EES auk fulltrúa þess ríkis sem fer með formennsku í ráðherraráði ESB og fulltrúa framkvæmdastjórnar ESB hittast tvisvar á ári. Spánn fer nú með formennsku í ráðinu, en ráðherra átti fund með fulltrúum spænskra stjórnvalda ásamt öðrum ráðherrum EFTA-ríkjanna.