Hoppa yfir valmynd
21. nóvember 2023 Fjármála- og efnahagsráðuneytið, Innviðaráðuneytið

Vegir okkar allra – upplýsingasíða um nýja nálgun í fjármögnun

Upplýsingasíðan Vegir okkar allra var opnuð í dag. Þar er að finna upplýsingar um nýja nálgun stjórnvalda á fjármögnun vegakerfisins sem innleidd verður í skrefum á næstu árum. Stefnt er að því að aðlaga fjármögnunarkerfið að orkuskiptum og minnkandi notkun jarðefnaeldsneytis með upptöku kílómetragjalds í stað olíu- og bensíngjalda en fjármála- og efnahagsráðherra mælti í dag fyrir frumvarpi á Alþingi um innleiðingu nýs kerfis. Markmiðið er að tryggja fjármögnun vegakerfisins til framtíðar og jafnræði í gjaldtöku óháð orkugjafa ökutækja.

Ljóst er að núverandi kerfi mun renna sitt skeið á enda og tekjur af því munu minnka verulega samhliða orkuskiptum.

Vegakerfið er nú að stórum hluta fjármagnað með olíu- og bensíngjöldum sem greidd eru fyrir notkun dísil- og bensínbíla af vegakerfinu þegar dælt er á bílinn. Með fjölgun rafmagns- og tengiltvinnbíla, sem greiða lítið eða ekkert fyrir notkun á vegakerfinu, og með fjölgun sparneytnari bíla hafa þessar tekjur dregist verulega saman. Fjármögnun vegakerfisins hefur því verið að veikjast á sama tíma og umferð hefur aukist. Þess vegna er nauðsynlegt að taka upp nýtt kerfi sem tryggir jafnræði í gjaldtöku og fjármögnun óháð orkugjöfum. Nýtt kerfi mun endurspegla betur raunverulega notkun á vegasamgöngum en olíu- og bensíngjöld gera með því að byggja á fjölda ekinna kílómetra.

Gert er ráð fyrir að aðlögunin á fjármögnunarkerfinu fari fram í tveimur áföngum:

  • Fyrra skrefið verði stigið á næsta ári með innleiðingu kílómetragjalds fyrir notkun rafmagns-, vetnis- og tengiltvinnbíla sem hafa hingað til borið takmarkaðan kostnað af notkun vegakerfisins. Gjaldið verði 6 kr á ekinn km fyrir rafmagns- og vetnisbíla en 2 kr á km fyrir tengiltvinnbíla.
  • Seinna skrefið verði stigið í ársbyrjun 2025 þegar dísil- og bensínbílar fara einnig að greiða kílómetragjald, sem gert er ráð fyrir að verði jafnhátt fyrir alla óháð orkugjafa en þó taki það tillit til þyngdar umfram tiltekið lágmark og þar með vegslits. Samhliða er gert er ráð fyrir að eldri gjöld á borð við vörugjöld af eldsneyti muni eftir atvikum lækka eða falla niður, þó kolefnisgjald verði áfram greitt.

Með því að tvískipta innleiðingunni á nýja kerfinu nær það einungis til minni hluta bílaflotans í fyrri áfanganum, sem einfaldar undirbúning og framkvæmd og gerir betur kleift að draga lærdóma af reynslunni fyrir framhaldið.

Líkt og fram kemur á upplýsingasíðunni verður kostnaður við rekstur raf- og tengiltvinnbíla áfram umtalsvert minni en vegna ökutækja sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti þrátt fyrir hið nýja kílómetragjald. Eigandi bensínbíls með meðaleyðslu sjö lítra á hundrað km sem ekur 14 þúsund km að jafnaði á ári greiðir um 84 þúsund krónur árlega fyrir notkun í formi vörugjalda á bensín og má líta á það sem ígildi kílómetragjalds. Það jafngildir sjö þúsund krónum á mánuði. Verði frumvarp um kílómetragjald samþykkt munu notendur rafmagns- og vetnisbíla greiða sama gjald fyrir afnot vegakerfisins og bensínbíllinn, miðað við sama meðalakstur. Tengiltvinnbílar munu hins vegar greiða tveggja krónu kílómetragjald á næsta ári, eða þriðjung á við rafmagnsbíla – enda nota þeir að hluta til jarðefnaeldsneyti og greiða áfram vörugjöld af því. Að auki mun stuðningur stjórnvalda við kaup á vistvænum bílum halda áfram. Hvati einstaklinga til orkuskipta í vegasamgöngum verður því áfram ríkur með tilliti til rekstrarkostnaðar bíla.

Nánari upplýsingar um nýja nálgun við fjármögnun vegakerfisins er að finna á Vegir okkar allra.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta