Ráðherra undirritar yfirlýsingu Sþ um börn og loftslagsaðgerðir
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hefur undirrita Declaration on Children, Youth and Climate Action, yfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna (Sþ) um börn, ungmenni og loftslagsaðgerðir.
Yfirlýsingin hefur verið undirrituð af rúmlega 40 ríkjum, en auk Íslands hafa m.a. Noregur, Svíþjóð, Spánn og Holland undirritað yfirlýsinguna sem á rætur sínar í loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Madríd árið 2019, COP25. Markmiðið með yfirlýsingunni er að forgangsraða áherslum sem börn og ungmenni leggja áherslu á í tengslum við baráttuna gegn loftslagsbreytingum og auka aðkomu þeirra að stefnumótun og þátttöku í ákvarðanatöku er kemur að aðgerðum og aðlögun að loftslagsbreytingum.
Áherslur á þátttöku barna- og ungmenna í baráttunni gegn loftslagsbreytingum er þegar að finna í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, m.a. með þátttöku fulltrúa ungmenna á loftslagsráðstefnum Sþ, með framkvæmd Barnasáttmála Sþ í gegnum Barnvænt Ísland og með ungmennaráði heimsmarkmiðanna.
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: Við þurfum öll að taka þátt í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og þar hefur unga fólkið gengið fram með góðu fordæmi. Við þurfum að hlusta á þau og fylgja þeirra fordæmi í mörgum efnum og yfirlýsingin sem ég undirritaði staðfestir vilja íslenskra stjórnvalda til að gera það.“