Hoppa yfir valmynd
29. nóvember 2023 Utanríkisráðuneytið

Aukið eftirlit með mikilvægum neðansjávarinnviðum

Varnarmálaráðherrar sameiginlegu viðbragðssveitarinnar (Joint Expeditionary Force, JEF) hafa ákveðið að virkja eina af viðbragðsáætlunum sveitarinnar sem felur í sér aukið eftirlit með mikilvægum neðansjávarinnviðum með skipum og flugvélum frá þátttökuríkjunum. Verkefnið hefst í byrjun desember og er því ætlað að auka eftirlit og viðveru í samstarfi við Atlantshafsbandalagið sem einnig sinnir sambærilegum verkefnum á Eystrasaltssvæðinu.

„Neðansjávarinnviðir á borð við fjarskiptastrengi og orkuleiðslur geta verið berskjaldaðir fyrir skemmdarverkum, eins og við höfum orðið vitni að á þessu ári. Ísland reiðir sig mjög á þessa mikilvægu innviði og því skiptir þessi geta JEF miklu máli fyrir okkur líkt og önnur þátttökuríki,“ segir Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra. 

Á vettvangi JEF hefur markvisst verið unnið að þróun viðbragðsáætlana undanfarið ár sem miða að því að efla fælingarmátt og viðbragðsgetu gagnvart margvíslegum öryggisáskorunum. Þetta er í fyrsta skipti sem látið er reyna á slíka áætlun og sýnir með áþreifanlegum hætti framlag JEF samstarfsins til öryggismála í Norður-Evrópu, sérstaklega með tilliti til öryggis neðansjávarinnviða og aðgerða gegn fjölþáttaógnum. Ísland tekur þátt með því að leggja til borgaralega sérfræðinga á sviði upplýsingamála á vegum utanríkisráðuneytisins og Landhelgisgæslunnar sem munu meðal annars starfa í höfuðstöðvum JEF í Bretlandi. 

JEF er samstarfsvettvangur líkt þenkjandi Norður-Evrópuríkja, Norðurlandanna, Eystrasaltsríkjanna, Bretlands og Hollands, um öryggis- og varnarmál með áherslu á norðurslóðir, Norður-Atlantshafið og Eystrasaltið. Samstarfinu er ætlað að tryggja skjót viðbrögð við hvers kyns aðstæðum og styðja við annað fjölþjóðasamstarf, svo sem á vegum Atlantshafsbandalagsins. Þátttökuríkin eiga jafnframt reglubundið og virkt öryggispólitískt samráð. 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta