Hoppa yfir valmynd
29. nóvember 2023 Forsætisráðuneytið, Mennta- og barnamálaráðuneytið, Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Samkeppni um gerð og miðlun myndefnis á íslensku á samfélagsmiðlum

Efnt verður til samkeppni meðal ungmenna um gerð og miðlun myndefnis á íslensku á samfélagsmiðlum. Ríkisstjórnin hefur samþykkt að verja fimm milljónum króna til verkefnisins.

Greint var frá þessum áformum á kynningarfundi um áherslur ráðherranefndar um íslenskra tungu sem fram fór í Hörpu í dag. Markmið samkeppninnar er að auka sýni- og heyranleika íslenskrar tungu með því að hvetja til þess að sköpun og miðlun á samfélagsmiðlum fari fram á íslensku.

Er verkefnið einnig í samræmi við áherslur sem fram koma í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna um mikilvægi þess að börn og ungmenni nýti íslenska tungu í leik og námi og að tungumálið sé skapandi og frjór hluti af umhverfinu. Þá er í þingsályktunartillögu um aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu 2023-2026 vísað til þess að skapa þurfi skilyrði til að sjálfsagt sé að fólk á öllum aldri skapi og miðli list sinni á íslensku.

Leitað verður samstarfs við aðila á borð við Samband íslenskra framhaldsskólanema, Samfés, fjölmiðla og sérfræðinga á sviði stafrænnar markaðssetningar varðandi fyrirkomulag samkeppninnar.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta