Eflt samstarf um náttúruvernd og hreint haf
Samstarf á milli Íslands og Írlands á sviði náttúruverndar, málefna hafsins og Norðurslóðamála verður eflt. Þetta var ákveðið á fundi Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra með Malcolm Noonan, ráðherra náttúru- og minjaverndar á Írlandi, í Reykjavík. Írar hafa sótt um áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu og sagði Guðlaugur Þór að Ísland styddi umsókn Íra.
Írar vinna nú að því að setja sjöunda þjóðgarð sinn á fót og vilja samstarf við önnur ríki í náttúruverndarmálum, m.a. varðandi þjálfun landvarða. Noonan nefndi sérstaklega vernd margæsa, en um helmingur heimsstofnsins dvelur á Írlandi á vetrum og kemur við á Íslandi á leið sinni til og frá varpstöðvum í N-Kanada. Nauðsynlegt væri að tryggja framtíð margæsa og fleiri stofna farfugla með góðri vöktun, upplýsingaskiptum og samræmingu verndaraðgerða ríkja á farleiðum fuglanna.
Einnig var rætt um aukið samstarf varðandi umhverfisvernd í hafi, m.a. á grundvelli OSPAR-samningsins um vernd NA-Atlantshafsins. Noonan kom hingað til lands til að taka þátt í alþjóðlegri ráðstefnu um plastmengun á Norðurslóðum í Hörpu og var í pallborði þar ásamt Guðlaugi Þór um aðgerðir gegn plastmengun. Báðir ráðherrarnir lögðu þar áherslu á að vinna gegn plastmengun bæði heima fyrir og á alþjóðavettvangi. Guðlaugur Þór nefndi að hluti plastmengunar á Norðurslóðum kæmi langt að og því skipti miklu máli fyrir okkur að dregið yrði úr plastmengun í Asíu og öðrum heimshlutum, m.a. á grunni nýs alþjóðlegs samnings gegn plastmengun, sem er í mótun í samningaviðræðum.