Hoppa yfir valmynd
30. nóvember 2023 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Unnið að nýrri norrænni framkvæmdaáætlun með áherslu á réttlát, græn umskipti

Af fundi norrænu vinnumarkaðsráðherranna í Reykjavík í dag.  - mynd

Norræna ráðherranefndin hefur allt þetta ár undir formennsku Íslands undirbúið nýja framkvæmdaáætlun fyrir 2025-2030 í samræmi við framtíðarsýnina um að Norðurlöndin verði sjálfbærasta og samþættasta svæði heims fyrir 2030. Græn umskipti í norrænu samstarfi voru meðal þess sem var til umfjöllunar á fundi vinnumarkaðsráðherra Norðurlandanna sem fram fór í Reykjavík í dag. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, stýrði fundinum. Græn og réttlát umskipti á vinnumarkaði eru eitt af forgangsverkefnum Íslands í formennskunni í Norrænu ráðherranefndinni.

„Vinnumarkaðurinn gegnir lykilhlutverki í þeim breytingum sem nauðsynlegar eru til að sporna gegn loftslagsbreytingum og stuðla að réttlátum, grænum umskiptum. Á sama tíma verðum við að tryggja að breytingarnar leiði ekki til aukins ójöfnuðar eða komi illa niður á viðkvæmum hópum. Það er forgangsmál,“ segir hann.

„Grænu umskiptin voru á fundinum rædd í tengslum við framtíðarsýn í norrænu samstarfi á sviði vinnumála. Það er afar mikilvægt að þau séu hluti af framtíðarsýninni til ársins 2030 og ég er ánægður með viðtökur hinna ráðherranna. Grænu umskiptin eru sannarlega komin á dagskrá.“ 

Á fundinum í dag ákváðu ráðherrarnir auk þess að setja á fót formlegt norrænt-baltneskt samstarfsnet gegn atvinnutengdri brotastarfsemi. Að mati ráðherranna koma svört atvinnustarfsemi og reglubrot ekki aðeins niður á einstaklingum heldur eru þau alvarlegt samfélagslegt vandamál sem skekkir samkeppnisstöðu og dregur úr öryggi á vinnumarkaði. Þessu er samstarfsnetinu ætlað að sporna gegn. 

Græn umskipti í Hörpu á morgun

Umræðurnar á fundinum um græn umskipti tengjast beint inn í norrænt þríhliðasamtal sem félags- og vinnumarkaðsráðuneytið stendur fyrir í Hörpu á morgun, föstudaginn 1. desember. Viðburðurinn ber yfirskriftina Green Transition on the Nordic Labour Market: A Tripartite Dialogue.

Viðburðinum er ætlað að vera vettvangur samtals milli aðila vinnumarkaðarins á Norðurlöndunum og norrænu vinnumarkaðsráðherranna. Fjallað verður um áskoranir og tækifæri sem felast í grænum umskiptum á norrænum vinnumarkaði. Norrænir fulltrúar hins opinbera taka þátt, sem og fulltrúa launþega og atvinnurekenda.

Guðmundur Ingi segir ráðstefnuna vera mikilvægt innlegg inn í áðurnefnda norræna framkvæmdaáætlun til ársins 2030. 

„Í Hörpu verða hlið við hlið fulltrúar norrænna launþega, atvinnurekenda og stjórnvalda. Það er afar brýnt að samtalið sé á milli þessara þriggja aðila, enda verðum við að takast í sameiningu á við það hvernig vinnumarkaðurinn getur tekið þátt í að sporna gegn loftslagsbreytingum og stuðlað að réttlátum grænum umskiptum,“ segir hann.

Til grundvallar umræðunum í Hörpu verður ný skýrsla frá norrænu rannsóknarstofnuninni Nordregio. Þar er fjallað um áhrif grænna og réttlátra umskipta, auk þess sem tekin eru saman raundæmi frá ríkjunum um það á hvaða vettvangi hægt sé að ná sameiginlegum, þríhliða árangri við hin grænu umskipti. 

Að fundi loknum í gærkvöldi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta