Aukin tækifæri til útflutnings sjávarafurða með nýju samkomulagi við ESB
Í gær lauk samningaviðræðum milli EFTA-ríkjanna innan EES (Íslands, Noregs og Liechtenstein) og Evrópusambandsins (ESB) um framlög til Uppbyggingarsjóðs EES fyrir tímabilið 1. maí 2021 til 30. apríl 2028. Samningaviðræður hafa staðið yfir frá júní 2022. Samhliða þeim hafa farið fram viðræður um endurnýjun samnings um tollfrjálsa innflutningskvóta fyrir sjávarafurðir frá Íslandi inn á markað ESB.
Samið um betri markaðsaðgang fyrir sjávarafurðir
Nýtt samkomulag felur í sér tollkvótakerfi sem stóreykur möguleika íslenskra útflytjenda til að flytja sjávarafurðir tollfrjálst til ESB. Alls var samið um 15 þúsund tonna árlega tollfrjálsa innflutningskvóta og breiða samsetningu afurða í tollkvótum. Um er að ræða átta mismunandi tollkvóta fyrir samtals 52 afurðir, margfalt fleiri en áður hefur verið samið um. Hinir nýju tollkvótar skapa umtalsvert betri möguleika til þess að tollkvótarnir nýtist útflytjendum íslenskra sjávarafurða til fulls.
Eins og á fyrri sjóðstímabilum var samið um að ónýttir tollkvótar fyrir þau tvö ár sem þegar eru liðin af núverandi sjóðstímabili deilist á þau ár sem eftir eru af tímabilinu. Einnig náðist fram það nýmæli að magn sem ekki nýtist á samningstímabilinu verði nú hægt að nýta í tvö ár eftir að samningstímanum lýkur.
Þá náðist samkomulag um að ráðist verði í heildstæða endurskoðun á viðskiptakjörum Íslands og ESB, en stefnt er að því að þeim viðræðum verði lokið á samningstímabilinu. Með því móti hefur verið skapaður vettvangur til viðræðna við ESB um greiðari aðgang Íslands að innri markaði ESB, ekki síst fyrir sjávarafurðir.
Umtalsverðir fjármunir til Úkraínutengdra verkefna
Heildarframlag EES/EFTA-ríkjanna til Uppbyggingarsjóðs EES verður rúmir 1,8 milljarðar evra á tímabilinu. Þar af verður um 5,5% fjárhæðarinnar eða um 100 milljónum evra ráðstafað til verkefna í viðtökuríkjum sjóðsins sem tengjast afleiðingum innrásarinnar í Úkraínu. Miðað við núverandi hlutfall Íslands í greiðslum EES/EFTA-ríkjanna til sjóðsins (4,5%) og núverandi gengi evrunnar má ætla að árleg framlög Íslands á sjóðstímabilinu geti að jafnaði numið um 1,7 milljörðum króna, miðað við fulla nýtingu viðtökuríkja sjóðsins á framlögum tímabilsins, þar af tæplega 100 milljónum króna, á ári til verkefna sem tengjast Úkraínu. Hins vegar má telja líklegt að framlögin verði ekki fullnýtt og mun þá framlag Íslands verða lægra sem því nemur.
Um Uppbyggingarsjóð EES
Allt frá gildistöku EES-samningsins hafa EFTA-ríkin innan EES, Noregur, Ísland og Liechtenstein, skuldbundið sig til að leggja sitt af mörkum til að draga úr félagslegum og efnahagslegum ójöfnuði á Evrópska efnahagssvæðinu. Í þessari skuldbindingu felst að EES/EFTA-ríkin fjármagna ýmsar umbætur í gegnum sjóðinn og uppbyggingu í þeim aðildarríkjum ESB sem lakar standa í efnahagslegu og félagslegu tilliti. Viðtökuríki sjóðsins eru 15 talsins.
Auk þess að draga úr ójöfnuði í Evrópu er annað meginmarkmið sjóðsins fólgið í að styrkja tvíhliða tengsl EES/EFTA-ríkjanna við viðtökuríkin. Slíkt samstarf hefur m.a. leitt af sér markvissa þekkingaruppbyggingu og samfélagslegar umbætur í viðtökuríkjunum og ekki síst skapað tækifæri til tengslamyndunar, alþjóðlegs verkefnasamstarfs og viðskipta fyrir fjölda íslenskra félagasamtaka, stofnana, skóla, fyrirtækja og einstaklinga.
Þannig hafa yfir 400 verkefni með íslenskri þátttöku notið styrks úr sjóðnum á því sjóðstímabili sem nú er að ljúka.