Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna hafin
Tuttugasti og áttundi aðildaríkjafundur og ráðstefna Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (COP28) stendur nú yfir í Dúbaí í Sameinuðu arabísku furstadæmunum.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra verður með erindi á leiðtogaráðstefnu Loftslagssamningsins, sem fram fer dagana 1.- 2. desember og hægt verður að fylgjast með í beinu streymi. Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, tekur þátt í fundum og hliðarviðburðum á ráðstefnunni, auk tvíhliðafunda með ríkjum og alþjóðastofnunum.
Fulltrúar stjórnvalda, félagasamtaka og fyrirtækja skráðir á ráðstefnuna
Formleg sendinefnd Íslands er skipuð 12 fulltrúum frá forsætisráðuneytinu, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu, utanríkisráðuneytinu, fjármála- og efnahagsráðuneytinu og Umhverfisstofnun. Einnig sækja fundinn sérfræðingar frá Orkustofnun og Veðurstofu Íslands. Þá styrkir umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið fulltrúa ungmenna til þátttöku á fundinum og er þetta í þriðja sinn sem fulltrúi ungmenna er í hinni opinberu sendinefnd.
Auk hinnar formlegu sendinefndar sækja þingmenn og fulltrúar frá Reykjavíkurborg, félagasamtökum og fyrirtækjum viðburði sem tengjast loftslagsráðstefnunni og eru þetta í allt rúmlega 80 þátttakendur frá Íslandi. Áætlað er að rúmlega 92 þúsund manns taki þátt í loftslagsráðstefnunni og tengdum viðburðum í Dúbaí.
Áhersla á útfösun jarðefnaeldsneytis og að halda hækkun hitastigs við 1,5°C
Hnattræn stöðutaka, þar sem lagt er mat á árangur ríkja, er meðal stærstu mála á dagskrá þingsins. Fyrir liggur að herða þarf verulega á aðgerðum svo markmiðum Parísarsamningsins verði náð. Jafnframt verður rætt um aðgerðir til samdráttar, þar sem orkuskipti eru áherslumál, sem og hnattræn markmið um aðlögun að loftslagsbreytingum.
Þegar við setningu fundarins náðu aðildarríkin saman um stofnun nýs loftslagshamfarasjóðs og fjölmargar stórar þjóðir tilkynntu um framlög sín.
Stóru línurnar í málflutningi Íslands á aðildaríkjafundinum eru:
-
Að leggja áherslu á að markmið um að hitastig jarðar hækki ekki meira en 1,5°C
-
Að niðurgreiðslum á notkun jarðefnaeldsneytis verði hætt
-
Útfösun á notkun jarðefnaeldsneyti
-
Málefni freðhvolfsins og hafsins
Jafnframt mun Ísland í málflutningi sínum leggja ríka áherslu á að mannréttindi verði virt sem og að jafnréttismál verði í hávegum höfð.