Réttlát, græn umskipti á norrænum vinnumarkaði rædd í Hörpu
Græn umskipti á vinnumarkaði voru til umfjöllunar í fjölmennu þríhliða samtali sem félags- og vinnumarkaðsráðuneytið stóð fyrir í Hörpu í dag. Ráðstefnan bar yfirskriftina Green Transition on the Nordic Labor Market: A Tripartite Dialogue. Samtalið fór fram undir formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni og til grundvallar því lá viljayfirlýsingin Reykjavik Memorandum of Understanding. Í henni er lögð áhersla á mikilvægi þess að horfa til tækifæra og áskorana grænna umskipta til að tryggja að þau verði réttlát og treysti hin sameiginlegu gildi á norrænum vinnumarkaði.
Ráðstefnan var vettvangur samtals milli aðila vinnumarkaðarins á Norðurlöndunum og norrænna vinnumarkaðsráðherra. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, bauð til samtalsins.
„Í Hörpu voru hlið við hlið fulltrúar norrænna launþega, atvinnurekenda og stjórnvalda. Mér þótti brýnt að samtalið væri þríhliða, enda verðum við að takast í sameiningu á við þetta stóra mál. Ísland fer nú með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni og græn og réttlát umskipti á vinnumarkaði eru eitt af forgangsverkefnum Íslands. Norðurlöndin hafa alla burði til að verða leiðandi á heimsvísu í þessum málaflokki,“ segir hann.
Guðmundur Ingi segir vinnumarkaðinn gegna lykilhlutverki í þeim breytingum sem nauðsynlegar eru til að sporna gegn loftslagsbreytingum og stuðla að réttlátum, grænum umskiptum.
„Á sama tíma verðum við að tryggja að breytingarnar leiði ekki til aukins ójöfnuðar eða komi illa niður á viðkvæmum hópum. Það er forgangsmál,“ segir hann.
Ný skýrsla um áhrif grænna og réttlátra umskipta
Til grundvallar umræðunum í Hörpu var ný skýrsla frá norrænu rannsóknarstofnuninni Nordregio. Þar er fjallað um áhrif grænna og réttlátra umskipta, auk þess sem tekin eru saman raundæmi frá ríkjunum um það á hvaða vettvangi hægt sé að ná sameiginlegum, þríhliða árangri við hin grænu umskipti.
- Sjá skýrslu Nordregio: Embracing the just green transition on the Nordic labour market
Í aðdraganda ráðstefnunnar fór fram árlegur fundur norrænu vinnumarkaðsráðherranna. Efni fundarins var ný framkvæmdaáætlun fyrir árin 2025-2030 í norrænu samstarfi á sviði vinnumála og stýrði Guðmundur Ingi fundinum. Ráðherrarnir tóku síðan þátt í ráðstefnunni í dag sem ætlað er að vera mikilvægt innlegg inn nýja framkvæmdaáætlun, í samræmi við norrænu framtíðarsýnina til ársins 2030.
- Sjá vefsíðu ráðstefnunnar:
Green Transition on the Nordic Labour Market: A Tripartite Dialogue
Í samtalinu tóku þátt fulltrúar stjórnvalda, launþega og atvinnurekenda.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra hélt opnunarávarp ráðstefnunnar.
Karen Ellemann, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar tók þátt í samtalinu.
Þátttakendur komu að alls staðar frá Norðurlöndunum.
Pallborðsumræður í morgun undir stjórn Hugins Freys Grétarssonar sem stýrði jafnframt ráðstefnunni.
Græn umskipti krufin til mergjar í Hörpu í morgun.
Myndir: Eyþór Árnason/norden.org