Hoppa yfir valmynd
2. desember 2023 Forsætisráðuneytið

Forsætisráðherra ávarpaði loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flutti í dag ávarp á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP28, sem nú fer fram í Dúbaí í Sameinuðu arabísku furstadæmunum.

Forsætisráðherra lagði í ávarpi sínu áherslu á nauðsyn þess að ná fram markmiðum Parísarsamningsins um að takmarka hlýnun jarðar við 1,5°C. Hagkerfi heims þurfi að leggja megináherslu á sjálfbærni og velsæld í stað þess að hámarka framleiðslu og neyslu. Hún lagði áherslu á að mannréttindi væri lykilatriði í öllum loftslagsaðgerðum. Þá væri nauðsynlegt fasa út notkun á jarðefnaeldsneyti og hætta öllum niðurgreiðslum á því. Að lokum tilkynnti forsætisráðherra að Ísland yrði stofnaðili að nýjum loftslagshamfarasjóði og muni leggja 80 milljónir króna þar inn á komandi ári.

„Heimsbyggðin þarf að einblína á hætturnar sem felast í loftslagsbreytingunum. Þessi mikilvægi fundur þarf að senda skýr skilaboð um að við munum leggja enn meira af mörkum til að tryggja framtíð jarðarinnar,“ sagði Katrín Jakobsdóttir.

Þá flutti forsætisráðherra ávarp á leiðtogafundi um mótvægisaðgerðir og opnunarávarp á málstofu Grænvangs um samstarf einkaaðila og opinberra aðila varðandi lausnir í umhverfis- og loftslagsmálum.

Í gær flutti forsætisráðherra ávarp á viðburði á vegum Öryggismálaráðstefnunnar í Munchen um loftslags- og öryggismál. Forsætisráðherra átti einnig tvíhliða fund með Kaju Kallas, forsætisráðherra Eistlands. Ráðherrarnir tóku svo þátt í pallborðsumræðum í eistneska skálanum þar sem rætt var m.a. um loftslagsmál og öryggi og jafnréttismál. Þá átti forsætisráðherra tvíhliða fund með Keir Starmer, formanni breska Verkamannaflokksins.

Ávarp forsætisráðherra á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta