Nýtt frumvarp um lagareldi kynnt í samráðsgátt
Lagt hefur verið fram í samráðsgátt stjórnvalda frumvarp Svandísar Svavarsdóttir matvælaráðherra um lagareldi. Frumvarpið er afrakstur umfangsmikillar stefnumótunarvinnu sem hófst í byrjun árs 2022.
Í frumvarpinu eru lögð til ný heildarlög um sjókvíaeldi, landeldi og hafeldi. Markmið frumvarpsins er að skapa lagareldi á Íslandi skilyrði til aukinnar verðmætasköpunar með sjálfbæra nýtingu og vistkerfisnálgun að leiðarljósi. Einnig er lögð áhersla á að lagareldi verði stjórnað út frá skilgreindum mælikvörðum sem komi í veg fyrir að greinin hafi neikvæð áhrif á umhverfi sitt, hvort sem er á vistkerfi eða villta stofna. Að auki verði dýravelferð og sjúkdómavarnir með besta hætti á heimsvísu.
Sjókvíaeldi er sú grein lagareldis sem hvað hraðast hefur vaxið sl. áratug og þar hefur orðið mikil verðmætasköpun. Helstu breytingar og nýmæli frumvarpsins sem snúa að sjókvíaaeldi eru:
- Afföll og lúsasmit í kvíum hafa bein áhrif á framleiðslumöguleika
- Framleiðsluheimildir takmarkast ef strok úr kvíum á sér stað
- Óheimilt er að hlutfall kynþroska fisks í sjókví fari yfir 1%
- Framleiðslugjald verður í betra samræmi við tekjumyndun framleiðenda
- Vistkerfisnálgun og dýravelferð sett í forgang með innleiðingu smitvarnarsvæða
- Eyjafjörður og Öxarfjörður verða friðaðir fyrir lagareldi og núgildandi friðunarsvæði verða lögfest
- Áhættumat erfðablöndunar miðast við fjölda fiska í stað lífmassa
- Flutningur eldisheimilda á frjóum laxi á milli svæða verður mögulegur
- Fyrirsjáanleiki og sjálfstæði sveitarfélaga eykst með breyttu fyrirkomulagi núverandi Fiskeldissjóðs
- Ráðgjafarhlutverk Hafrannsóknastofnunar skýrist
- Eftirlit og eftirlitsheimildir Matvælastofnunar verða styrktar
Í frumvarpinu er sérstaklega fjallað um landeldi í fyrsta sinn og skipa smitvarnir og dýraheilbrigði þar stærstan sess. Greining er gerð á ólíku eldisumhverfi bæði land- og sjókvíaeldis ásamt þeim áskorunum sem framundan eru, bæði hjá rekstraraðilum og Matvælastofnun sem hefur eftirlit með starfseminni.
Hafeldi er ekki enn stundað við Ísland en aukinn áhugi hefur verið á starfseminni síðastliðin ár. Til að komast að því hvort og hvar hafeldi sé vænlegt í íslenskri lögsögu þarf að ráðast í ítarlegar rannsóknir sem sníða þarf ramma um. Einnig þarf að skapa ramma um leyfisveitingaferlið en miklu máli skiptir að fyrirsjáanleiki og skýr löggjöf séu fyrir hendi til að styðja við fyrstu skref greinarinnar.
Frumvarpið má sjá hér á samráðsgátt, hægt er að skila inn athugasemdum til og með 3. janúar 2024.