Hoppa yfir valmynd
7. desember 2023 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Hagnýting opinberra upplýsinga auðvelduð

Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hefur kynnt fyrir ríkisstjórn frumvarp til breytingar á lögum um endurnot opinberra upplýsinga. Með þessari uppfærslu á lögunum eru þau sett í takt við stafræna tækni nútímans og eflingu stafrænnar nýsköpunar, ekki síst þegar kemur að gervigreind. Markmið breytinganna er að takast á við hindranir á hagnýtingu einkaaðila á opinberum upplýsingum og upplýsingum sem eru fjármagnaðar af hinu opinbera með því að gera gagnasett aðgengileg án endurgjalds.

Auk þess að gera upplýsingar og gögn aðgengilegri stuðlar frumvarpið einnig að frumkvæðisbirtingu opinberra upplýsinga á hátt sem auðveldar hagnýtingu þeirra. Með þessu uppfyllir íslenska ríkið einnig skyldur sínar til innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins um opin gögn og endurnotkun upplýsinga.

Helstu breytingar sem lagðar eru til innihalda heimild til ráðherra til að setja reglugerð um mjög verðmæt gagnasett á sviði landupplýsinga, veðurfræði, hagskýrslna, fyrirtækja og eignarhalds þeirra og samgöngunets. Þannig skulu gagnasettin gerð aðgengileg án endurgjalds og á tölvulæsilegu sniði. Einnig verði kvik gögn, þ.e. stafræn gögn sem uppfærast ört, t.d. gögn úr skynjurum og mælitækjum, gerð aðgengileg til endurnotkunar um leið og þeim hefur verið safnað, þegar því verður við komið. Þá verði rannsóknargögn, sem eru að hluta eða öllu leyti fjármögnuð af hinu opinbera, heimiluð til nota án endurgjalds svo lengi sem þau hafi verið gerð aðgengileg í gegnum gagnasafn viðkomandi stofnunar. Loks verði opinberum aðilum heimilt að veita notendum undanþágu frá skyldu til að geta uppruna upplýsinga við endurnot.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta