Hoppa yfir valmynd
8. desember 2023 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Andleg vellíðan er lykill að inngildingu innflytjenda

Panelumræður á ráðstefnunni sem fram fór í Gamla bíói í Reykjavík. - mynd

Tengsl geðheilbrigðis og inngildingar innflytjenda var umfjöllunarefni fjölmennrar þverfaglegrar ráðstefnu sem félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Norræna velferðarmiðstöðin og Norræna ráðherranefndin stóðu fyrir í Reykjavík nýverið. Ísland fer nú með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni.

Ráðstefnuna sóttu sérfræðingar í málefnum innflytjenda og komu þeir víða að á Norðurlöndunum. Útgangspunkturinn var að engin heilsa væri án geðheilsu og nauðsynlegt væri að stuðla að vellíðan og félagslegri þátttöku innflytjenda, enda væri það grunnur alls annars. Fólk væri til að mynda ólíklegt til að fara út á vinnumarkað eða sækja sér menntun ef andleg heilsa leyfði það ekki. Það leiddi síðan til enn meiri hættu á einangrun og verri líðanar.

Meðal þess sem fram kom var að flest þurfa ekki á sértækri geðheilbrigðisþjónustu að halda búi þau við almennt öryggi, góð félagsleg tengsl og upplifi sig sem virka þátttakendur í samfélaginu. Þetta eigi meðal annars við um margt fólk sem upplifað hafi áföll. Það sé því margt sem hver og einn geti gert með því að mynda tengsl við innflytjendur, rækta vinasambönd og þannig aukið andlega vellíðan og getu fólks til að komast yfir áföll.

Þá var rætt á ráðstefnunni um mikilvægi þess að styrkja félagsleg tengsl á vinnustöðum og í námi s.s. með því að koma á félagakerfi til að auka vellíðan, á sama tíma og áhersla er lögð á að efla faglega hjálp sálfræðinga og geðlækna fyrir þau sem þurfa á þeirri þjónustu að halda.

„Samtalið á ráðstefnunni var virkilega gott og þarft. Og sömuleiðis var mikilvægt að ræða málið í norrænu samhengi, enda eiga sömu áskoranir og tækifæri við þvert á landamæri,“ segir Áshildur Linnet, formaður stýrihóps um stefnu í málefnum innflytjenda og flóttafólks og einn af skipuleggjendum ráðstefnunnar.

„Við þurfum öll sem manneskjur á því að halda að hafa hlutverk og skipta máli. Inngilding getur aldrei verið alfarið á ábyrgð innflytjenda. Með því að tryggja að innflytjendur hafi tækifæri og geti vaxið sem einstaklingar verðum við öll ríkari.“

Ráðstefnuna sótti fólk alls staðar að á Norðurlöndunum.

Áshildur Linnet, formaður stýrihóps um stefnu í málefnum innflytjenda og flóttafólks.

Meðal þess sem fram kom á ráðstefnunni var að flest þurfa ekki á sértækri geðheilbrigðisþjónustu að halda búi þau við almennt öryggi, góð félagsleg tengsl og upplifi sig sem virka þátttakendur í samfélaginu. 

Paola Cardenas, sálfræðingur og formaður innflytjendaráðs, í pontu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta