Mælti fyrir breytingu á lögum um fjölmiðla
Menningar- og viðskiptaráðherra mælti á dögunum fyrir frumvarpi til laga um breytingar á lögum um fjölmiðla nr. 38/2011. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um fjölmiðla í því skyni að uppfæra regluverk um fjölmiðla til samræmis við þær miklu breytingar sem orðið hafa á fjölmiðlaumhverfi og fjölmiðlanotkun almennings á undanförnum árum.
Frumvarpinu er ætlað að innleiða tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2018/1808 um breytingar á hljóð- og myndmiðlunartilskipun Evrópusambandsins frá árinu 2010.
„Fjölmiðlaumhverfið hefur tekið stakkaskiptum á síðustu árum vegna tækninýjunga, nýrra miðlunarleiða, tilkomu samfélagsmiðla og áhrifa netsins á fjölmiðlun,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.
Áhorfsvenjur einstaklinga hafa breyst, barna jafnt sem fullorðinna. Ráðherra telur nauðsynlegt að lagaumhverfi fjölmiðla endurspegli þessar breytingar og að tilteknar reglur um myndefni séu samræmdar á öllu EES-svæðinu. Þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu miða öðru fremur að því að tryggja vernd barna og öryggi notenda myndmiðla, óháð því hvort myndefni er miðlað með línulegum eða ólínulegum hætti – og óháð því hvort myndefni er miðlað í fjölmiðlum eða á mynddeiliveitum.
Efni frumvarpsins miðlar einnig að því að valdefla almenning með því að auka fræðslu um upplýsinga- og miðlalæsi. Upplýsinga- og miðlalæsi er talið nauðsynleg færni í nútímasamfélagi og mikilvægur hluti af netöryggi almennings
Frumvarpið er einnig til þess fallið að efla réttindi sjón- og heyrnarskertra, sérstaklega rétt til táknmáls, textunar og hljóðlýsingar á því efni sem miðlað er. Það miðar að því að fjölmiðlar bæti aðgengi sjón- og heyrnarskertra að myndefni með virkum hætti.
„Þetta frumvarp felur í sér ýmsar réttarbætur í takt við þær breytingar sem hafa orðið á umhverfi fjölmiðla á undanförnum árum,“ segir ráðherra.
Sjá einnig: