Undirritun saminga um öfluga sjúkrahúsþjónustu í dreifbýli
Samningur sem hefur að markmiði að tryggja nauðsynlega mönnun sérhæfðs starfsfólks sjúkrahúsanna í heilbrigðisumdæmum Vestfjarða og Austurlands var undirritaður í heilbrigðisráðuneytinu fyrir helgi og staðfestur af heilbrigðisráðherra. Samningurinn er afrakstur af vinnu starfshóps sem ráðherra skipaði um öfluga sjúkrahúsþjónustu í dreifbýli. Samningsaðilar eru heilbrigðisstofnanirnar í þessum umdæmum, Sjúkrahúsið á Akureyri og Landspítali. Enn fremur voru undirritaðir samstarfssamningar milli heilbrigðisstofnananna tveggja og Landspítala um sérnám í læknisfræði.
Öflug sjúkrahúsþjónusta í dreifbýli
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra setti fyrr á þessu ári á fót verkefni með það að markmiði að tryggja nauðsynlega mönnun sérhæfðs starfsfólks sjúkrahúsanna í heilbrigðisumdæmum Vestfjarða og Austurlands. Starfshópurinn starfaði undir verkefnaheitinu öflug sjúkrahúsþjónusta í dreifbýli og var ætlað að vinna tillögur um samvinnu og ýmsar aðgerðir til að halda úti nauðsynlegri bráðaþjónustu á 2. stigi heilbrigðisþjónustu á fyrrnefndum svæðum. Í verkefninu voru Vestfirðir og Austurland skilgreind sem tiltölulega fámenn, dreifbýl svæði sem eru viðkvæm með tilliti til reksturs heilbrigðisþjónustu vegna þess hve langt er í sérhæfðar bjargir.
Þjónusta sérhæfðs starfsfólks í heilbrigðisþjónustu
Meginefni samningsins um þjónustu sérhæfðs lykilstarfsfólks í heilbrigðisþjónustu felst í aukinni samvinnu Landspítala (LSH) og Sjúkrahússins á Akureyri (SAk.) við dreifbýlissjúkrahúsin tvö, svo takast megi að manna þau á fullnægjandi hátt samkvæmt skilgreindri mönnunarþörf. Samningurinn tekur til allra heilbrigðisstétta sem tilteknar eru í skilgreindri mönnunarþörf, einkum þeirra sem sinna bráðaþjónustu, s.s. lækna, hjúkrunarfræðinga, ljósmæðra, lífeindafræðinga og geislafræðinga. Samningsaðilar munu vinna saman að því að tryggja fullnægjandi mönnun.
Forstjórar hlutaðeigandi stofnana, þ.e. Runólfur Pálsson forstjóri LSH, Hildigunnur Svavarsdóttir forstjóri SAk., Guðjón Hauksson forstjóri Heilbrigðisstofnunar Austurlands og Hildur Elísabet Pétursdóttir, settur forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða undirrituðu samninginn sem Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra staðfesti.
„Við setjum með þessum samningum skýran fókus á hið mikilvæga hlutverk sjúkrahúsa í dreifðum byggðum. Við formgerum samstarf og samvinnu þeirra og stóru sjúkrahúsanna á sviði mönnunar og vonandi leiðir þetta einnig til þess að fleiri ungir lækna sjá tækifærin og áskoranirnar sem felast í því að starfa á sjúkrahúsum í dreifðum byggðum“ segir Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra.
„Það er von okkar að með þessum samningum skapist grundvöllur fyrir tryggari mönnun umdæmissjúkrahúsa þessara svæða, enda er starfsemi þeirra einstaklega mikilvæg fyrir íbúana“ segja Guðjón Hauksson og Hildur Elísabet Pétursdóttir, forstjórar heilbrigðisstofnana Austurlands og Vestfjarða.
Samstarfssamningar um sérnám í læknisfræði
Samstarfssamningar Landspítala við Heilbrigðisstofnun Vestfjarða annars vegar og Heilbrigðisstofnun Austurlands hins vegar, um sérnám í læknisfræði snúa að framkvæmd samstarfs um sérnám í mismunandi greinum læknisfræði. Námið fari þá fram að hluta við sjúkrahús heilbrigðisstofnananna og að hluta á Landspítala, að undangengnu samþykki mats- og hæfnisnefndar um sjúkrahúsin sem gilda kennslustaði. Vonir eru bundnar við að þetta samstarf muni efla læknismönnun sjúkrahúsanna. Það á annars vegar við meðan á sérnáminu stendur, en ekki síður er horft til þess að þetta efli nám sérnámslækna og færni þeirra í að takast á við starfsumhverfi sjúkrahúsa í dreifðum byggðum og auki jafnframt áhuga að starfa í dreifbýli.
Tómas Þór Ágústsson, framkvæmdastjóri lækninga á Landspítala, leiddi starf hópsins um öfluga sjúkrahúsþjónustu í dreifbýli. Aðrir fulltrúar í hópnum voru Helga Harðardóttir, tilnefnd af heilbrigðisráðuneytinu, Berglind Harpa Svavarsdóttir, tilnefnd af Samtökum sveitarfélaga á Austfjörðum – Austurbrú, Þórkatla Soffía Ólafsdóttir, tilnefnd af Samtökum sveitarfélaga á Vestfjörðum – Vestfjarðarstofu, Óskar Örn Óskarsson, tilnefndur af Félagi sjúkrahúslækna, Lovísa Agnes Jónsdóttir, tilnefnd af embætti landlæknis, Guðjón Hauksson, tilnefndur af Heilbrigðisstofnun Austurlands, Gylfi Ólafsson, tilnefndur af Heilbrigðisstofnun Vestfjarða og Ragnheiður Halldórsdóttir, tilnefnd af Sjúkrahúsinu á Akureyri.