Hoppa yfir valmynd
15. desember 2023 Utanríkisráðuneytið

Fjögur fyrirtæki fá styrki úr Heimsmarkmiðasjóði atvinnulífs

Á myndinni eru frá vinstri: Hrefna Sigfinnsdóttir, framkvæmdastjóri Credit Info, Kjartan Due Nielsen verkefnistjóri hjá Verkís, Gréta Hlöðversóttir, framkvæmdastjóri As we grow, Elin Rósa Sigurðardóttir, skrifstofustjóri þróunarsamvinnuskrifstofu utanríkisinsráðuneytisins, Magnús Már Þórðarson, forstjóri Tern Systems, og Svanhvít Aðalsteinsdóttir, forstöðumaður Heimsmarkmiðasjóðs atvinnulífsins. - myndGSal

Fjögur fyrirtæki fengu í vikunni styrki frá utanríkisráðuneytinu úr Heimsmarkmiðasjóði atvinnulífs vegna samstarfsverkefna í þróunarríkjum. Markmið sjóðsins er að hvetja til þátttöku og framlags atvinnulífsins til þróunarsamvinnu. Fyrirtækin sem um er að ræða eru Tern systems, As We Grow, Creditinfo Group og Verkís. Hér fyrir neðan má lesa nánar um verkefnin sem hlutu styrki að þessu sinni:

Uppbygging flugsamgangna í Eþíópíu 

Tern systems, hlaut 29.060.000 króna styrk til  verkefnisins „Air Traffic Management Information System (ATMIS)“ sem er ætlað að styðja við uppbyggingu flugsamgangna í Eþíópíu sem fara ört vaxandi. Góðar samgöngur eru forsenda framfara og í stóru landi eru flugsamgöngur mikilvægur þáttur í að stuðla að ferðafrelsi og styrkja útflutning, ekki síst þar sem vegasamgöngur eru erfiðar. Aðal markmið verkefnisins er að bæta öryggi og gæði flugsamgangna innanlands í Eþíópíu og að þróa upplýsingakerfi yrir flugvelli. Kerfið mun veita flugumferðarstjórum aðgang að veðurgögnum og öðrum flugtengdum upplýsingum. Verkefnið verður þróað í náinni samvinnu við heimamenn og í samstarfi við eþíópísk flugmálayfirvöld. Mikilvæg auka afurð verkefnisins er miðlun þekkingar frá Íslandi til Eþíópíu á sviði tölvuvæðingar flugumferðarstjórnar auk þess að veita ungu tæknimenntuðu fólki í Eþíópíu spennandi atvinnutækifæri.  

Valdefling handverkskvenna í Perú

As We Grow hlaut 28.660.000 króna styrk til verkefnis í Perú. Fyrirtækið hyggst, í samstarfi við samstarfsaðila sína í Perú og með tilstyrk Heimsmarkmiðasjóðs atvinnulífsins, hefja þriggja ára verkefni til valdeflingar handverkskvenna í Perú og framleiðslu á umhverfisvænum fatnaði. Verkefnið byggir á langri reynslu félagsins á umhverfisvænni framleiðslu í Perú og kröfuhörðum viðskiptavinum á erlendum mörkuðum - auk þeirra verkefna sem As We Grow hefur þegar unnið með góðum árangri í samvinnu við hópa kvenna í Perú. Í dag er enn mikill kynjamunur þegar kemur að menntun, efnahagslegri þátttöku og pólitískri valdeflingu í Perú. Helsti ávinningur af verkefninu er að með samstarfi, þjálfun og námskeiðum stýrðum af hönnunarteymi As We Grow munu handverkskonur í Perú læra um strauma og stefnu alþjóðlegu tískuhúsanna, skilja gæðakröfur markaðarins - og hvernig best sé að mæta þeim kröfum. Með þessa reynslu og þekkingu í farteskinu, verða konurnar betur í stakk búnar til að þróa eigin vörur og byggja upp fyrirtæki í framtíðinni sem eru samkeppnishæf á alþjóðlegum markaði.   

Aukin viðskiptatækifæri fyrir afrísk fyrirtæki með betri upplýsingum um lánshæfi 

Creditinfo Group hlaut 29.060.000 króna styrk til að auka tækifæri til viðskipta fyrir afrísk fyrirtæki og meðvitund um sjálfbærni og varnir gegn peningaþvætti. Creditinfo Group var stofnað á Íslandi árið 1997 og er nú með starfsemi í yfir 30 löndum, þar með talið 20 ríkjum í Afríku. Ein af lykilforsendum öflugs fjármálamarkaðar er aðgengi að upplýsingum. Í mörgum Afríkuríkjum er skortur á upplýsingum um lánshæfi og fleira takmarkandi þáttur í hagvexti þeirra. Aukin krafa í alþjóðasamfélaginu um lánshæfisgögn, sjálfbærnigögn og gögn um áreiðanleika viðskipta getur einangrað ríki og hindrað vöxt þeirra, séu þessi gögn ekki til staðar. Því hefur Creditinfo Group lagt kapp á að auka við slíkt aðgengi í þeim afríkuríkjum sem félagið starfar í. Styrkurinn nýtist við að efla enn frekar aðgengi að gögnum á fjórum lykilmörkuðum Creditinfo Group í Afríku: Senegal, Fílabeinsströndinni, Kenía og Úganda. Hann nýtist til að efla fjármálaaðgengi þeirra ríkja og stuðla að því að þau standi ríkari ríkjum jafnfætis þegar kemur að aðgengi þeirra að lánshæfisupplýsingum, sjálfbærniupplýsingum og upplýsingum sem nýtast í vörnum gegn peningaþvætti. 

Mat á jarðvarmaauðlindum á Indlandi og fýsileikakönnun í framhaldinu 

Verkís hlaut 8.718.000 króna styrk fyrir tólf mánaða verkefni, sem miðar að því að meta jarðvarmaauðlindir á Indlandi, einkum í Himalaya/Indlandsskaga-svæðinu. Í fyrsta hluta verður unnið úr fyrirliggjandi gögnum um 350 svæði sem þykja fýsileg til jarðhitavinnslu og úr þeim valin þrjú svæði fyrir síðari hluta verkefnisins til fýsileikakönnunnar (pre-feasibility study). Hún miðar að því að meta hentugustu notkunarmöguleika svæðanna, svo sem til hitaveitu, iðnaðar, ferðamennsku og/eða samþættrar nýtingar. Indland byggir á kolum fyrir orkuframleiðslu og er mjög háð innflutningi á jarðefnaeldsneyti en þarf vegna loftslags- og orkuöryggismála að byggja meira á grænum orkugjöfum. Landið hefur mikla möguleika á nýtingu jarðvarma og uppbyggingu virkjana og þar hafa Íslendingar þekkingu fram að færa. Verkefnið verður unnið í samstarfi við þarlenda sérfræðinga og í samtali við sveitarfélög á þeim svæðum sem verða fyrir valinu. Fýsileikakönnun er undanfari frekari jarðfræðirannsókna og undirbúnings fyrir nýtingu jarðvarma. Slík uppbygging myndi hafa margvísleg jákvæð áhrif á nærsamfélagið með minni mengun og lægri orkukostnaði fyrir heimili og fyrirtæki og mögulega tækifærum í uppbyggingu á ferðaþjónustu. Það myndi örva efnahag svæðisins og auka atvinnutækifæri og velsæld íbúa. 
 
Lesa má nánar um Heimsmarkmiðasjóð atvinnulífsins á vef sjóðsins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta