Framkvæmdaáætlun í barnavernd – börn í öndvegi í allri nálgun
Framkvæmdaáætlun í barnavernd 2023–2027 var samþykkt á Alþingi í síðustu viku. Framkvæmdaáætlunin miðar að umfangsmikilli endurskoðun og úrbótum á þjónustu við börn og að börnin verði í öndvegi í allri nálgun. Hún leggur áherslu á mannréttindi og samfélagsþátttöku barna og að hver og ein aðgerð í áætluninni taki mið af öllum börnum óháð kynþætti, þjóðerni, trú, lífsskoðun, fötlun og kynhneigð.
Aðgerðir framkvæmdaáætlunarinnar eru eftirfarandi:
- Heildarendurskoðun á barnaverndarlögum
- Meðferðarúrræði utan meðferðarheimila
- Meðferðarfóstur
- Eflt og bætt verklag í barnaverndarþjónustu
- Gæðaviðmið fyrir barnaverndarþjónustu
- Endurskoðun verklags vegna móttöku og þjónustu við fylgdarlaus börn
- Könnun alvarlegra atvika
- Rannsóknir á sviði barnaverndar
- Húsnæði fyrir þjónustu í þágu farsældar barna
- Eftirfylgni og innleiðing verkefna
Framkvæmdaáætlunin var kynnt á morgunverðarfundi um aukna þjónustu við börn í ágúst. Við undirbúning áætlunarinnar var haft víðtækt samráð við helstu hagsmunaaðila um áherslur og forgangsröðun verkefna. Var þetta í fyrsta sinn sem börn voru þátttakendur í samráði við undirbúning framkvæmdaáætlunar á sviði barnaverndar. Litið var sérstaklega til laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.
Auk þess að tala fyrir aukinni og bættri þjónustu við börn og fjölskyldur, þá talar ný framkvæmdaáætlun einnig fyrir auknu samstarfi við fjölskyldur, börn, nærumhverfi barna og milli kerfa sem hafa aðkomu að málefnum barna. Markmiðið með nýrri framkvæmdaráætlun er að styrkja stoðir barnaverndarkerfisins með samræmdum hætti til að vernda betur börn gegn ofbeldi og vanrækslu.
Mennta- og barnamálaráðuneytið, Barna- og fjölskyldustofa og barnaverndarþjónusta sveitarfélaga munu vinna samkvæmt áætluninni að aðgerðunum næstu fjögur árin í samstarfi við helstu aðila sem að þjónustunni koma með bættan hag barna að leiðarljósi.