Hoppa yfir valmynd
19. desember 2023 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Loftslagsráð: Greining og ábendingar

Loftslagsráð: Greining og ábendingar, skýrsla Dr. Ómars H. Kristmundssonar, sem  umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið lét vinna um starfsemi Loftslagsráðs, er nú aðgengileg á vef Stjórnarráðsins.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, setti í upphafi árs af stað vinnu við greiningu á núverandi hlutverki Loftslagsráðs og ábendingum um leiðir til að efla það.

Fyrsta Loftslagsráðið, lauk fjögurra ára skipunartíma sínum í haust, en það var sett á fót í kjölfar breytinga á lögum um loftslagsmál árið 2019.  Ráðið er sjálfstætt starfandi og hefur það meginhlutverk að veita stjórnvöldum aðhald og ráðgjöf um stefnumarkandi ákvarðanir og markmið Íslands sem tengjast loftslagsmálum.  Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um að hlutverk Loftslagsráðs skuli tekið til endurskoðunar, með aukinni áherslu á ráðgefandi hlutverk og vísindastarf, auk aðhalds- og eftirlitshlutverks gagnvart stjórnvöldum.

Umhverfis-, orku- og lofslagsráðherra skipaði formann og varaformann Loftslagsráðs í september sl. og vinnur ráðuneytið nú í samstarfi við formann og varaformann ráðsins að undirbúningi fyrir skipan nýs Loftslagsráðs. Sú vinna, sem nú er í fullum gangi, snýr m.a. að því að styrkja stoðir og efla ráðið.

Í skýrslunni Loftslagsráð: Greining og ábendingar eru settar  fram ábendingar um vænlegar leiðir til frekari ávinnings af starfi ráðsins. Byggt er á samanburði við evrópsk loftslagsráð, og er það m.a. mat skýrsluhöfundar að mikilvægt sé að ráðið verði í auknum mæli skipað sérfræðingum sem hafa þekkingu á loftslagsmálum og hinum margvíslegu víddum þeirra og að samráð ráðsins við hagaðila verði eflt.

Loftslagsráð: Greining og ábendingar

Undirbúningur í gangi varðandi breytingar á Loftslagsráði – ráðið verði þróað og eflt

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta