Nefnd skipuð um stöðu ADHD á landinu
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hefur skipað nefnd til að fjalla um þjónustu og stuðning við einstaklinga með ADHD (athyglisbrest með eða án ofvirkni). Markmið vinnunnar er m.a. að greina stöðu þessara mála hér á landi, lýsa samvinnu helstu kerfa sem snertir fólk með ADHD og þeim áskorunum og tækifærum sem þar leynast. Hópnum er falið að skrifa grænbók um málaflokkinn.
Grænbækur eru gerðar til þess að örva umræðu og reifa sérstök mál á landsvísu. Þær eru unnar út frá samráðsjónarmiðum þannig að haghöfum er boðið að koma sjónarmiðum sínum á framfæri varðandi málefnið. Því er nefndinni ætlað að leita eftir sjónarmiðum haghafa og sérfræðinga, s.s. fulltrúa heilbrigðisþjónustu, fagfélaga, sjúklingasamtaka, embættis landlæknis, Sjúkratrygginga Íslands og Lyfjastofnunar.
Formaður nefndarinnar er Bjarni Sigurðsson, lyfjafræðingur og sérfræðingur í heilbrigðisráðuneytinu. Aðrir nefndarmenn eru Páll Matthíasson, formaður Geðráðs, Arnór Víkingsson, formaður Endurhæfingarráðs, Gyða Sigurlaug Haraldsdóttir, varaformaður ADHD samtakanna, Laufey Gunnlaugsdóttir, fulltrúi félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins, Sandra G. Zarif, fulltrúi barna- og menntamálaráðuneytisins og Ingibjörg Sveinsdóttir, fulltrúi heilbrigðisráðuneytisins.
Gert er ráð fyrir að nefndin skili ráðherra grænbók um ADHD fyrir 1. júlí 2024.