Tvíhliða samráð Íslands og Kína
Tvíhliða samráð Íslands og Kína fór fram í Peking í gær þar sem ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, Martin Eyjólfsson, fundaði með Deng Li, vararáðherra í utanríkisráðuneyti Kína. Þetta er í þriðja sinn sem Ísland og Kína eiga samráð af þessu tagi. Tvíhliða samskipti ríkjanna og fletir á frekara samstarfi á sviði loftslags-, ferða- og jafnréttismála voru til umræðu. Mannréttindi voru einnig rædd, þar á meðal starfsemi mannréttindaráðsins og mikilvægi alþjóðasamningsins um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Auk þess ræddu ráðuneytisstjóri og vararáðherrann þróun samskipta Kína við Evrópusambandið og Bandaríkin og helstu áskoranir sem alþjóðakerfið stendur frammi fyrir, svo sem átökin fyrir botni Miðjarðarhafs og innrásarstríð Rússlands í Úkraínu.
Þá átti ráðuneytisstjóri fund með Ling Ji, vararáðherra í viðskiptamálaráðuneyti Kína. Á árinu 2023 eru tíu ár liðin frá undirritun fríverslunarsamnings milli Íslands og Kína. Á þessum áratug hafa viðskipti ríkjanna meira en tvöfaldast og er Kína stærsti útflutningsmarkaður Íslands í Asíu. Framkvæmd fríverslunarsamningsins var til umræðu á fundinum og var ákveðið að ráðast í uppfærslu samningsins en viðræður um það hefjast í byrjun árs. Ráðuneytisstjóri og vararáðherrann ræddu einnig ráðherrafund Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar sem fer fram í febrúar 2024 og áframhaldandi samvinnu um ýmis úrlausnarefni á þeim vettvangi.
Auk þess hitti ráðuneytisstjóri fulltrúa íslenskra fyrirtækja í Kína og fulltrúa alþjóðastofnanna í landinu.