Hoppa yfir valmynd
29. desember 2023 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Sameiginlegar starfsstöðvar fyrir svæðisskipt verkefni ríkis og sveitarfélaga

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, hefur skipað starfshóp sem skoða á möguleika á sameiginlegum starfsstöðvum með hliðsjón af svæðisskiptum verkefnum ríkis og sveitarfélaga svo sem skólaþjónustu, farsæld barna, íþróttastarfi og æskulýðsstarfi.

Mennta- og barnamálaráðherra, Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ) og Ungmennafélags Íslands (UMFÍ) undirrituðu í vikunni samning um eflingu íþróttastarfs á landsvísu með átta svæðisbundnum starfsstöðvum. Hlutverk starfsstöðvanna verður að þjónusta íþróttahéruðin á viðkomandi svæði með áherslu á börn með fötlun og börn með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn.

Samkvæmt lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna skulu sveitarfélög skipa svæðisbundin farsældarráð sem vettvang fyrir svæðisbundið samráð um farsæld barna. Fyrirhugað er að sveitarfélögin myndi nú á næstunni svæðisbundnu farsældarráðin í kjölfar farsældarþings sem haldið var í september sl.

Þá er í undirbúningi frumvarp til laga um skólaþjónustu og í þeirri vinnu er jafnframt til skoðunar að koma á skólaþjónustusvæðum sem svæðisbundnum samráðsvettvangi. Jafnframt er frumvarp að nýjum æskulýðslögum í burðarliðnum þar sem markmiðið er að tryggja öllum börnum þátttöku í frístundastarfi (félagsmiðstöðvum, frístundaheimilum og ungmennahúsum).

Fyrir hendi eru ýmsir möguleikar til samnýtingar og samlegðar. Sameiginlegt markmið í þessari vinnu er að jafna tækifæri barna óháð efnahag, aðstæðum og búsetu sem og að efla þjónustu á viðkomandi svæði. Starfshópnum verður falið að kanna hvort grundvöllur sé til þess að samræma svæðaskiptingu þessara málaflokka og innan hvers svæðis verði þá komið á fót sameiginlegum starfsstöðvum. Í vinnu hópsins verður horft til niðurstöðu samráðshóps á vegum forsætisráðuneytisins og Hagstofu Íslands, sem fólst í því að skapa sameiginlega skilgreiningu á þjónustusvæðum með tilliti til landshluta.

Starfshópurinn er þannig skipaður:

  • Svandís Ingimundardóttir, formaður
  • Líney Rut Halldórsdóttir, án tilnefningar
  • Hólmfríður Sveinsdóttir, fulltrúi innviðaráðuneytis
  • Svala Kristín Hreinsdóttir, fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga
  • Bjarni Guðmundsson, fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga
  • Haraldur Reinhardsson fulltrúi Byggðastofnunar
  • Hlöðver Ingi Gunnarsson, fulltrúi Grunns – félags fræðslustjóra og stjórnenda skólaskrifstofa
  • Sólveig Sigurðardóttir, fulltrúi Samtaka stjórnenda í velferðarþjónustu
  • Andri Stefánsson, fulltrúi Íþrótta- og Ólympiusambands Íslands
  • Auður Inga Þorsteindóttir, fulltrúi Ungmennafélags Íslands
  • Páll Ólafsson, fulltrúi Barna- og fjölskyldustofu
  • Ása Kristín Einarsdóttir, fulltrúi Félags íþrótta-, æskulýðs- og tómstundafulltrúa

Áheyrnarfulltrúi er Soffía Vagnsdóttir samkvæmt tilnefningu Grunns – félags fræðslustjóra og stjórnenda skólaskrifstofa. Starfsmaður hópsins er Victor Berg Guðmundsson, sérfræðingur í mennta- og barnamálaráðuneytinu.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta