Hoppa yfir valmynd
3. janúar 2024 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Nýr þjónustusamningur við Ríkisútvarpið

Frá undirritun samningsins.  - mynd

Áhersla á íslenska tungu, miðlun á eldra efni, þjónustu við börn og ungmenni og aðgengi allra að miðlum RÚV eru meðal áhersluatriða í nýjum þjónustusamningi menningar- og viðskiptaráðherra við Ríkisútvarpið ohf. sem undirritaður var á dögunum. Gildistími samningsins er fjögur ár.

Þá er einnig lögð áhersla á þjónustu við alla landsmenn og að starfsemi Ríkisútvarpsins á landsbyggðinni aukist um 10% á samningstímabilinu.

Áfram er lagt fyrir Ríkisútvarpið að styrkja og efla sjálfstæða sjónvarpsþátta-, kvikmynda- og heimildamyndagerð með því að gerast kaupandi eða meðframleiðandi að slíku efni frá sjálfstæðum framleiðendum. Hlutfall dagskrárefnis sem keypt er af sjálfstæðum framleiðendum skal á samningstímanum vera að meðaltali 35% af íslensku efni í sjónvarpi, mælt í klukkustundum og miðað við frumsýnt efni á kjörtíma í línulegri dagskrá.

„Í nýjum samningi er lögð áhersla á íslensku sem er í takt við áherslur ríkisstjórnarinnar og aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu, sem ég mælti fyrir á Alþingi fyrr í mánuðinum. Ríkisútvarpið gegnir mikilvægu menningar- og félagslegu hlutverki og skiptir miklu máli að tryggja aðgengi allra þjóðfélagshópa að þeirra þjónustu,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.

„Það er ánægjulegt að þjónustusamningur til næstu fjögurra ára liggi fyrir. Áherslurnar sem þar eru lagðar eru skýrar og í sterkum tengslum við þá stefnu RÚV sem mörkuð var á síðasta ári. Öflugt Ríkisútvarp auðgar íslenska fjölmiðlaflóru og samfélagið í heild sinni, enda starfar það dag hvern í þágu fjölbreytts íslensks samfélags. Þeir fjármunir sem varið er til rekstrar RÚV fara beint í framleiðslu og miðlun á fjölbreyttu efni af öllu tagi í sjónvarpi, útvarpi og vef. Slík framleiðsla og miðlun á gæðaefni á íslensku er mikilvæg til að styrkja og efla íslenska tungu á tímum þegar að henni er sótt úr mörgum áttum,“ segir Stefán Eiríksson, útvarpsstjóri.

Í viðauka við þjónustusamninginn var yfirlýsing útvarpsstjóra og menningar- og viðskiptaráðherra vegna starfsemi RÚV sölu ehf. á auglýsingamarkaði. Þar segir að unnið verði að því á gildistíma samningsins að minnka umsvif Ríkisútvarpsins á samkeppnismarkaði.

Sjá einnig: Samningur um fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu 2024-2027


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta