Tilraunaverkefni um innleiðingu rafrænna fylgiseðla framlengt
Heilbrigðisráðuneytið hefur ákveðið að framlengja um eitt ár tilraunaverkefni um innleiðingu rafrænna fylgiseðla með lyfjum í stað pappírsseðla. Verkefnið einskorðast við H-merkt lyf sem notuð eru á sjúkrahúsum. Markmið þess er að meta hvort rafrænir fylgiseðlar tryggi örugga lyfjameðferð sjúklings á fullnægjandi hátt. Liður í verkefninu er einnig að kanna hvort notkun þeirra leiði til þess að H-merktum lyfjum á markaði fjölgi. Að óbreyttu hefði tilraunaverkefninu lokið 1. mars 2024 en það hefur nú verið framlengt til 1. mars 2025.
Innleiðing rafrænna fylgiseðla er eitt af forgangsverkefnum ríkisstjórnarinnar og einnig eitt af markmiðum ályktunar Alþingis um lyfjastefnu. Norðurlandaþjóðirnar hafa leitað eftir því sameiginlega við Evrópusambandið að reglur um notkun fylgiseðla með lyfjum verði endurskoðaðar, þannig að þeim aðildarríkjum sem vilja og geta verði heimilt að nota þá í stað prentaðra fylgiseðla. Þjóðirnar telja mikinn ávinning felast í slíkri breytingu. Meðal annars geti þetta tryggt betur öryggi sjúklinga, dregið úr kostnaði lyfjafyrirtækja við lyfjaskráningar, auðveldað sameiginleg lyfjainnkaup sem myndi sporna við lyfjaskorti, jafnframt því að ná hagstæðara innkaupaverði og lækka þar með lyfjaverð. Með rafrænum fylgiseðlum er unnt að einfalda og bæta upplýsingagjöf til notenda. Þannig gætu sjúklingar fengið aðgang að fylgiseðlum (útprentuðum eða í snjalltækjum) á tungumáli sem hentar þeim og í leturstærð eftir þörfum.