Styrkir TINNU-verkefnið um 25 milljónir króna: 200 konur og börn þátttakendur í verkefninu
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, hefur endurnýjað samning við Reykjavíkurborg um TINNU-verkefnið. Verkefnið miðar sérstaklega að einstæðum foreldrum sem eru utan vinnumarkaðar og hafa átt í langvarandi félagslegum vanda. Styrkurinn felur í sér stuðning við áframhaldandi þróun verkefnisins, með sérstakri áherslu á að þjónusta einstaklinga sem eru á örorku- eða endurhæfingarlífeyri með það að markmiði að styðja þá til virkni og hvetja til þátttöku á vinnumarkaði á ný. Í dag eru um 60 konur þátttakendur í TINNU og eru þær með alls um 140 börn á framfæri.
Markmiðið með TINNU er að efla og styrkja foreldra í uppeldishlutverki sínu auk þess að stuðla að bættum lífsgæðum fjölskyldunnar. Áhersla er á sjálfsstyrkingu, aukna félagslega færni og almenna virkni og þátttöku í samfélaginu, þar með talið á vinnumarkaði.
„TINNU-verkefnið er öflugt verkfæri til að draga úr félagslegri einangrun og fátækt einstæðra foreldra og barna þeirra, sem og að stuðla að auknum möguleikum varðandi atvinnuþátttöku. Þetta eru allt atriði sem ég hef lagt mikla áherslu á í starfi mínu sem félags- og vinnumarkaðsráðherra. Það er því frábært að geta stutt við þetta mikilvæga verkefni,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra.
„Í könnun sem gerð var meðal þátttakenda á árunum 2022 og 2023 kom fram að allir þátttakendur töldu að þátttaka þeirra í TINNU hefði stutt þau í foreldrahlutverkinu og einnig töldu allir að þátttaka þeirra í TINNU hefði auðveldað þeim aðgengi að stuðningi og/eða þjónustu fyrir barnið þeirra/börnin þeirra,“ segir Þuríður Sigurðardóttir, verkefnastjóri TINNU.
Þuríður bendir á að meðal þess sem þátttakendur hafi sagt hafi verið: „Þetta er topp 100 og mæli svo eindregið með fyrir ungar mæður og gæti ekki verið betra fyrirkomulag.“
Hópastarf, fræðsla og dagskrá fyrir börn
TINNU-verkefnið hefur um árabil verið starfrækt á vegum Reykjavíkurborgar með stuðningi ráðuneytisins. Unnið er á grundvelli einstaklingsáætlunar og samanstendur dagskráin af hópastarfi og fræðslu. Auk þess er boðið upp á dagskrá fyrir börn í skólaleyfum, sem og sérstaka sumardagskrá. Einstaklingsviðtöl og önnur þjónusta eru jafnframt í boði eftir þörfum.
Þá hafa TINNA og EAPN, samtök fólks í fátækt, átt með sér samstarf sl. þrjú ár sem hefur falið í sér að þátttakendur í TINNU starfa sem sjálfboðaliðar hjá EAPN, meðal annars til að efla vinnufærni og rjúfa félagslega einangrun og eins að bjóða foreldrum og börnum upp á sumarvirkni í skólaleyfum barna foreldrum að kostnaðarlausu.
TINNA er hluti af Virknihúsi hjá Reykjavíkurborg.
Rannveig Einarsdóttir og Guðmundur Ingi Guðbrandsson ásamt Elínu Oddnýju Sigurðardóttur, teymisstjóra í Virknihúsi, og Þuríði Sigurðardóttur, verkefnastjóra TINNU.