Hoppa yfir valmynd
9. janúar 2024 Matvælaráðuneytið

Reglugerð um frestun hvalveiða í samræmi við ráðleggingar matvælaráðuneytis

Langreyður í hafi. - myndiStock/JG1153

Sökum framkominna fullyrðinga og umræðu í fjölmiðlum tengdri áliti umboðsmanns Alþingis vegna kvörtunar Hvals hf. um frestun upphafs hvalveiða vill matvælaráðuneytið koma eftirfarandi á framfæri:

 

  • Ákvörðun matvælaráðherra um tímabundna frestun upphafs veiða á langreyðum á árinu 2023 var í samræmi við mat og ráðgjöf sérfræðinga ráðuneytisins. Fullyrðingar um annað eru rangar.

  • Þegar reglugerðin tók gildi 20. júní sl. hafði þá nýbirt álit fagráðs um velferð dýra verið rýnt innan ráðuneytisins. Í minnisblaði til ráðherra lögðu sérfræðingar ráðuneytisins til að sett yrði reglugerð til bráðabirgða um frestun upphafs veiða. Stoð reglugerðarinnar er í lögum um hvalveiðar sem heimilar ráðuneytinu að takmarka veiðar við ákveðinn tíma árs.

  • Í minnisblaðinu segir m.a. eftirfarandi: „Ráðuneytið metur það svo að unnt sé að ná þeim markmiðum sem að er stefnt án þess að kveðið verði á um afdráttarlaust bann við veiðunum, með því að fresta upphafi veiðanna um sinn. Í því skyni er lagt til að sett verði ákvæði til bráðabirgða við reglugerð nr. 163/1973, um hvalveiðar, um að fresta upphafi hvalveiða árið 2023. Áður en veiðar geta hafist er ljóst að tryggja þarf að atriði sem lýst er í eftirlitsskýrslu Matvælastofnunar og fjallað er um í áliti fagráðs endurtaki sig ekki. Í því ljósi og þar sem skammt er þar til áformað er að hefja veiðar er rétt að fresta upphafi vertíðarinnar þannig að ráðrúm gefist til þess að kanna hvort unnt sé að setja reglur sem tryggt geta að veiðar fari fram í samræmi við lög um velferð dýra. Til þess að gæta meðalhófs er þó ekki rétt að fresta upphafi vertíðar lengur en til 31. ágúst nk. að svo stöddu.“

  • Í minnisblaðinu var auk þess lagt til að á gildistíma reglugerðarinnar yrði haft samráð við leyfishafa og honum veittur kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum um þær ráðstafanir sem mögulega yrði gripið til í kjölfarið til að veiðarnar gætu farið fram í samræmi við lög um velferð dýra og lög um hvalveiðar.

  • Ráðuneytið tók loks fram að óháð því hvaða leið yrði farin væri viðbúið að málið yrði borið undir dómstóla og/eða umboðsmann Alþingis. Ráðuneytið taldi ekki forsendur til að spá fyrir um niðurstöðu slíks máls en benti á að eins og í öllum málum af þessu tagi gæti reynt á ákvæði stjórnarskrárinnar og eftir atvikum bótaábyrgð ríkisins. Að gefnu tilefni skal tekið fram að um er að ræða sjálfgefna og eðlilega upplýsingagjöf ráðuneytis til ráðherra.

 

Að öðru leyti vísar ráðuneytið til fréttar frá 7. júlí sl. þar sem finna má tímasett yfirlit um framgang málsins.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta