Hoppa yfir valmynd
12. janúar 2024 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Kynnti sér starfsemi CCP í London

Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra kynnir sér starfsemi tölvuleikjafyrirtækisins CCP í London - mynd

Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra heimsótti skrifstofur tölvuleikjafyrirtækisins CCP í London. CCP var stofnað árið 1997 í Reykjavík en hefur síðan þá vaxið töluvert. Í dag starfa rúmlega 400 manns hjá félaginu, þar af um 80 í London. Árið 2018 var fyrirtækið keypt af suður-kóreska tölvuleikjafyrirtækinu Pearl Abyss en kaupverðið nam 425 milljónum Bandaríkjadala, jafnvirði um 46 milljarða íslenskra króna á gengi þess tíma.

Fékk ráðherra meðal annars kynningu á væntanlegri uppfærslu á tölvuleiknum EVE Vanguard, en umhverfið í leiknum er meðal annars innblásið af íslenskri náttúru. Fyrirtækið framleiðir einnig leikina EVE Online og EVE Galaxy Conquest sem spilaðir eru af miklum fjölda notenda.

Mikill vöxtur hefur verið í tölvuleikjagerð á Íslandi en um 20 fyrirtæki starfa nú í þeim geira. Til marks um aukin umsvif gerðist það í fyrsta sinn í fyrra að starfsemi CCP fór undir 50% af heildarstærð íslenska tölvuleikaiðnaðarins.

„Það hefur verið aðdáunarvert að fylgjast miklum vexti í skapandi greinum á Íslandi og hvernig samspil þeirra hefur aukist samhliða. Þannig byggja tölvuleikir á handritum, teiknurum, tónlist, hönnun og fleiri skapandi greinum sem mynda órjúfanlega heild, rétt eins og í kvikmyndum. Það eru mikil verðmæti fólgin í því að halda áfram að styrkja umgjörð skapandi greina til framtíðar,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.

Til gamans má geta þess að Lilja Alfreðsdóttir kom á laggirnar fyrsta og eina framhaldsskóla landsins í tölvuleikjagerð með stofnun Menntaskólans á Ásbrú árið 2019 í samvinnu við Keili, Samtök iðnaðarins, Samtökum leikjaframleiðanda og Samtökum verslunar og þjónustu.

  • Kynnti sér starfsemi CCP í London - mynd úr myndasafni númer 1
  • Kynnti sér starfsemi CCP í London - mynd úr myndasafni númer 2

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta