Þórunn Þórðardóttir sjósett í Vigo á Spáni
Þórunn Þórðardóttir HF-300, nýtt hafrannsóknaskip Íslendinga verður sjósett í skipasmíðastöðinni Astilleros Armón í Vigo á Spáni kl. 14.30 að íslenskum tíma í dag, 12. janúar 2024.
Þórunn Þórðardóttir (1925-2007) sem skipið er nefnt eftir, var fyrsta íslenska konan með sérfræðimenntun í hafrannsóknum og var m.a. frumkvöðull í rannsóknum á frumframleiðni smáþörunga í hafinu við Ísland.
Þórunn leysir af hólmi Bjarna Sæmundsson HF 30 sem hefur þjónað sem hafrannsóknaskip í 53 ár. Skipið er nær 70 m langt og um 13 m breitt. Mikil áhersla hefur verið lögð á að skipið verði eins umhverfisvænt og sparneytið og unnt er, um er að ræða tvíorkuskip með rafknúnum skrúfum. Meginorkugjafi er olía en einnig eru stórar rafhlöður um borð sem stuðla að betri orkunýtingu.
„Sjósetning Þórunnar Þórðardóttur er mikilvægur áfangi" sagði Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra. „Þetta nýja og glæsilega skip mun verða bylting í hafrannsóknum á Íslandi. Hafrannsóknir eru grundvöllur þess að við náum frekari árangri í sjálfbærri nýtingu sameiginlegra auðlinda hafsins og auknum skilningi á vistkerfum sjávar“.
Stefnt er að því að skipinu verði siglt til landsins og afhent í október 2024.