Hoppa yfir valmynd
16. janúar 2024 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Auglýst eftir upplýsingafulltrúa og sérfræðingi í sviðslistum

Á Starfatorgi eru nú auglýstar tvær lausar stöður í menningar- og viðskiptaráðuneytinu. Annars vegar staða upplýsingafulltrúa og hins vegar staða sérfræðings í sviðslistum

Upplýsingafulltrúi

Um er að ræða áhugavert og fjölbreytt starf í krefjandi starfsumhverfi þar sem reynir á öguð vinnubrögð, ábyrgð og sjálfstæði. Upplýsingafulltrúi þarf að búa yfir framúrskarandi samskiptahæfileikum, reynslu og færni til hvers konar boðmiðlunar.

Upplýsingafulltrúi vinnur að kynningu á starfsemi ráðuneytisins og verkefnum þess og er ráðherra, ráðuneytisstjóra og öðru starfsfólki til ráðgjafar um samskipti við fjölmiðla. Starfið felst í að veita fjölmiðlum og almenningi upplýsingar og fylgjast með fréttaflutningi af starfsemi ráðuneytisins og ráðherra. Upplýsingafulltrúi tekur einnig þátt í upplýsingamiðlun innan ráðuneytisins. Upplýsingafulltrúi tilheyrir skrifstofu ráðuneytisstjóra.

Við leitum að drífandi einstaklingi sem þrífst á spennandi verkefnum, sýnir frumkvæði og sjálfstæði í vinnubrögðum auk þess að eiga auðvelt með að vinna í teymi. Við viljum fá jákvæðan einstakling sem býr yfir skipulagshæfileikum, getur fylgt verkefnum vel eftir, hefur mikla samskiptafærni, þreytist ekki á að leita lausna og hefur áhuga á því að eflast í starfi.

Helstu verkefni og ábyrgð

  • Samskipti við innlenda og erlenda fjölmiðla.
  • Gerð fréttatilkynninga og kynning á verkefnum ráðuneytisins.
  • Ritstjórn og umsjón með vef ráðuneytisins, innri vef og samfélagsmiðlum.
  • Ráðgjöf og aðstoð við starfsfólk vegna kynningar-, fræðslu- og útgáfumála.
  • Aðstoð við framkvæmd viðburða á vegum ráðuneytisins.
  • Umsjón með gerð og útgáfu ársskýrslu.
  • Þátttaka í öðrum sérfræðiverkefnum eftir atvikum.

Hæfniskröfur

  • Háskólamenntun sem nýtist í starfi.
  • Framúrskarandi samskiptahæfni, reynsla og færni af hverskonar boðmiðlun.
  • Starfsreynsla þar sem reynt hefur á textaskrif, ritstjórn og miðlun efnis.
  • Þekking og reynsla af uppsetningu efnis á myndrænan hátt.
  • Þekking og reynsla af gerð myndbanda æskileg.
  • Reynsla af notkun samfélagsmiðla á markvissan hátt.
  • Reynsla af notkun vefumsjónarkerfa.
  • Reynsla af verkefnastjórnun kostur.
  • Góð kunnátta í Office 365 og mjög góð þekking á Sharepoint.
  • Þekking og reynsla af forritum eins og Infogram, Canva eða öðru sambærilegu er kostur.
  • Geta til að tileinka sér tækninýjungar sem starfsumhverfi og verkefni kalla á.
  • Þekking og reynsla á sviði opinberrar stjórnsýslu er æskileg.
  • Metnaður og vilji til að ná árangri.
  • Skipulagsfærni, frumkvæði, sjálfstæði í vinnubrögðum, sveigjanleiki og geta til að vinna undir álagi.
  • Gott vald á íslensku og ensku og færni til að tjá sig í ræðu og riti.

Frekari upplýsingar um starfið
Laun samkvæmt gildandi kjarasamningi sem fjármála- og efnahagsráðherra og Félag háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins hafa gert.

Umsóknum skal fylgja starfsferilsskrá ásamt kynningarbréfi á íslensku þar sem tilgreind er ástæða umsóknar og hæfni viðkomandi til að gegna starfinu rökstudd. Mat á hæfni umsækjenda byggist á innsendum gögnum, úrlausn verkefna og viðtölum við umsækjendur. Ráðuneytið hvetur fólk óháð kyni til að sækja um.

Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu liggur fyrir. Umsóknir geta gilt í sex mánuði frá því að umsóknarfrestur rennur út, sbr. reglur um auglýsingar lausra starfa nr. 1000/2019.

Æskilegt að viðkomandi geti hafið störf sem fyrst.

Umsóknum skal skilað inn í gegnum Starfatorg.

Starfshlutfall er 100%

Umsóknarfrestur er til og með 22.01.2024

Nánari upplýsingar um starfið veitir:
Sigrún Brynja Einarsdóttir, ráðuneytisstjóri [email protected]

Sérfræðingur í sviðslistum

Laus er til umsóknar staða sérfræðings í sviðslistum. Starf sérfræðings felst í undirbúningi og framfylgd áætlana sem snúa að lista- og menningarstarfsemi sem heyrir undir ráðuneytið og krefst mikilla samskipta við forsvarsfólk lista- og menningarstofnana. Sérfræðingurinn kemur að lagasetningu, stefnumótun, áætlanagerð, fjárhagsáætlunum, verkáætlunum og eftirfylgni. Hann þarf að eiga í miklum samskiptum við hagaðila bæði innanlands og erlendis. Viðkomandi leiðir auk þess samningagerð við fjölmargar stofnanir og hagaðila fyrir hönd ráðuneytisins. Starfsmaðurinn svarar fyrirspurnum sem ráðuneytinu berast og er í forsvari málefnasviðsins fyrir hönd ráðuneytisins.

Við leitum að einstaklingi með yfirgripsmikla þekkingu á sviðslistum og menningu sem hefur drifkraft og jákvæðni að leiðarljósi og hefur áhuga á að vinna í fjölbreyttu og krefjandi umhverfi lista og menningar. Viðkomandi þarf að vera mjög sjálfstæður og búa yfir frumkvæði. Starfið krefst skipulagsfærni á lokastigi og framhaldsgráðu í samskiptafærni.

Helstu verkefni og ábyrgð

  • Samskipti við innlenda og erlenda hagaðila í sviðslistum og menningu.
  • Ráðgjöf í málaflokknum innan ráðuneytis.
  • Leiðandi hlutverk í stefnumótun í málefnum sviðslista og menningar á Íslandi.
  • Aðstoð við framkvæmd viðburða á vegum ráðuneytisins.
  • Tengiliður við allar helstu stofnanir ráðuneytisins sem sinna sviðslistum.
  • Ritun greinargerða og minnisblaða vegna stöðu sviðslista og menningar
  • Aðkoma að lagasetningu og rýni á lögum um sviðslistir og menningu
  • Þátttaka og ábyrgð á öðrum sérfræðiverkefnum eftir atvikum.
  • Þátttaka í starfshópum, nefndum og ráðum sem fulltrúi ráðuneytisins bæði innanlands og erlendis.

Hæfniskröfur

  • Háskólamenntun sem nýtist í starfi.
  • Framúrskarandi samskiptahæfni, reynsla og færni af sviðslistum og/eða menningarstarfi.
  • Reynsla af stefnumótun og áætlanagerð á sviði sviðslista og menningar.
  • Reynsla af verkefnastjórnun kostur.
  • Alþjóðleg þekking eða reynsla sem sviði sem nýtist í starfi.
  • Þekking og reynsla á sviði opinberrar stjórnsýslu er æskileg.
  • Metnaður og vilji til að ná árangri.
  • Skipulagsfærni, frumkvæði, sjálfstæði í vinnubrögðum, sveigjanleiki og geta til að vinna fjölbreytt verkefni undir álagi.
  • Gott vald á íslensku og ensku og færni til að tjá sig í ræðu og riti. Gott vald á norrænu tungumáli kostur.

Frekari upplýsingar um starfið
Laun samkvæmt gildandi kjarasamningi sem fjármála- og efnahagsráðherra og Félag háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins hafa gert.

Laun samkvæmt gildandi kjarasamningi sem fjármála- og efnahagsráðherra og Félag háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins hafa gert.

Umsóknum skal fylgja starfsferilsskrá ásamt kynningarbréfi á íslensku þar sem tilgreind er ástæða umsóknar og hæfni viðkomandi til að gegna starfinu rökstudd. Mat á hæfni umsækjenda byggist á innsendum gögnum, úrlausn verkefna og viðtölum við umsækjendur. Ráðuneytið hvetur fólk óháð kyni til að sækja um.

Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu liggur fyrir. Umsóknir geta gilt í sex mánuði frá því að umsóknarfrestur rennur út, sbr. reglur um auglýsingar lausra starfa nr. 1000/2019.

Æskilegt er að viðkomandi geti hafið störf 1. mars nk.

Umsóknum skal skilað inn í gegnum Starfatorg.

Starfshlutfall er 100%

Umsóknarfrestur er til og með 12.02.2024

Nánari upplýsingar veitir:
Arna Kristín Einarsdóttir, skrifstofustjóri menningar- og fjölmiðla  [email protected]

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta