Endurskoðun búvörusamninga lokið
Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra og Þórdís Kolbrún Gylfadóttir fjármála- og efnahagsráðaherra undirrituðu í dag fyrir hönd stjórnvalda samkomulag um endurskoðun búvörusamninga við Bændasamtök Íslands. Gunnar Þorgeirsson formaður BÍ undirritaði fyrir hönd samtakanna.
Ekki verða gerðar grundvallarbreytingar á samningunum að svo stöddu. Helstu breytingar eru að hægt verður á niðurtröppun greiðslumarks í sauðfjárrækt sem helst þannig óbreytt frá árinu 2024 og út gildistíma samninga eða til 31. desember 2026. Þá eru gerðar minni háttar breytingar á samningi um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða. Einnig eru gerðar breytingar á rammasamningi um almenn starfsskilyrði landbúnaðar þar sem m.a. er kveðið á um að óráðstöfuðu fjármagni sem ætlað er til aðlögunar að lífrænni framleiðslu verði ráðstafað í samræmi við aðgerðaáætlun til eflingar lífrænni ræktun. Breytingunum er jafnframt ætlað að efla fjölbreyttari ræktun.
Í bókunum við samkomulagsskjalið er einnig lögð áhersla á sameiginlegt markmið samningsaðila um að landbúnaður á Íslandi verði kolefnishlutlaus eigi síðar en árið 2040 og að nauðsynlegt sé að hefja undirbúning innleiðingar á loftslagsbókhaldi landbúnaðarins. Einnig er bókun um að samningsaðilar séu sammála því að forsendur fyrir tollasamningi Íslands og Evrópusambandsins frá árinu 2015 séu breyttar og að markmið yfirstandandi endurskoðunar verði að auka jafnvægi í samningnum. Þá eru aðilar sammála um að hefja nú þegar viðræður um starfsumhverfi landbúnaðar til framtíðar.