Mannréttindadómstóll Evrópu vísar máli gegn íslenska ríkinu frá dómi
Mannréttindadómstóll Evrópu hefur tilkynnt ríkislögmanni fyrir hönd íslenska ríkisins að dómstóllinn hafi ákveðið, annars vegar að aflétta bráðabirgðastöðvun á flutningi Hussein Hussein frá Íslandi til Grikklands og hins vegar að lýsa kæru hans og fjölskyldu hans ótæka til efnismeðferðar og að kæran yrði felld af málaskrá dómstólsins.
Fjölmiðlar hafa á fyrri stigum haldið almenningi upplýstum um gang þessa dómsmáls og hefur það hlotið töluverða athygli. Þykir í því ljósi rétt að upplýsa um þessar lyktir.
Forsaga málsins er sú að íslensk stjórnvöld höfðu synjað fjölskyldunni um alþjóðlega vernd hér á landi á þeim forsendum að þau væru þegar með slíka vernd í Grikklandi. Kæra fjölskyldunnar til Mannréttindadómstóls Evrópu var á því reist að málsmeðferð íslenskra stjórnvalda og brottvísun fjölskyldunnar úr landi hefði falið í sér brot á réttindum þeirra skv. 3., 6., 8., 13. og 14. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Ákvörðun dómstólsins um að taka kæruna ekki til efnismeðferðar er endanleg.