Þróað verður stöðumat í íslensku fyrir innflytjendur
Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, hafa undirritað samning um að þróa rafrænt stöðumat í íslensku fyrir innflytjendur. Um er að ræða hönnun á stöðluðu prófi á netinu til að meta hæfni í íslensku samkvæmt staðli Evrópska tungumálarammans sem notaður er til að meta færni í tungumálum.
Stöðumatinu er ætlað að auka aðgengi að og einfalda ferli við mat á íslenskukunnáttu innflytjenda þannig að þeir eigi auðveldara með að nýta þekkingu sína og hæfni og taka virkan þátt í samfélaginu og á vinnumarkaði. Þátttaka fólks af erlendum uppruna eykur fjölbreytileika, eflir íslenskt samfélag og menningu og er ein forsenda fyrir vexti efnahagslífsins.
„Gott áreiðanlegt mat á íslenskukunnáttu innflytjenda er mikið hagsmunamál fyrir íslenskt samfélag. Með auknum fjölda innflytjenda á Íslandi er þörfin fyrir stöðluð stöðupróf í íslensku brýn. Tungumálið er lykillinn að samfélaginu og vantar nú staðlaða og aðgengilega leið til að leggja mat á íslenskukunnáttu innflytjenda. Virk þátttaka þeirra gagnast þeim og samfélaginu öllu og er þessi áfangi nú mikilvægt skref í þá átt,“ segir Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.
Alls verður 103 milljónum króna veitt til verkefnisins á næstu tveimur árum. Verkefnið er liður í aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu og í samræmi við aðgerð 3 í menntastefnu stjórnvalda til ársins 2030 um markvissan stuðning við nemendur með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn.
Skólar, stofnanir og fyrirtæki geta notað stöðumatið til að greina færni starfsfólks og nemenda í íslensku. Það mun nýtast innflytjendum, atvinnulífinu og öllum stigum skólasamfélagsins, m.a. tilvonandi kennurum sem ekki hafa íslensku að móðurmáli og umsækjendum um ríkisborgararétt að mæta kröfum um hæfni. Þá eru rafræn hæfnimiðuð stöðupróf forsenda þess að hægt sé að meta íslenskufærni við inntöku í Háskóla Íslands.
„Hæfnimiðað stöðumat er mikilvægt fyrir Háskóla Íslands, aðrar menntastofnanir, íslenskt atvinnulíf og íslenskt samfélag almennt. Enn fremur er prófið réttlætismál fyrir innflytjendur. Á Hugvísindasviði Háskóla Íslands er mikil þekking og reynsla til að takast á við þetta verkefni. Háskóli Íslands fagnar því að takast á við þetta verkefni,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.
Með áreiðanlegu stöðumati er innflytjendum gert auðveldara að finna nám við sitt hæfi, í samræmi við eigin íslenskukunnáttu. Mun það jafnframt gera menntastofnanir, líkt og Háskóla Íslands, betur í stakk búnar til að mæta þörfum nemenda sinna og veita menntun sem tekur mið af þörfum samfélagsins hverju sinni.
Verkefnið mun jafnframt nýtast Háskóla Íslands við kennslu. Með vandaðri fræðilegri vinnu við aðlögun Evrópska tungumálarammans að íslensku tungumáli má skapa grunn að námskrárgerð, námsefnisgerð og námsmati á öllum skólastigum. Það stuðlar m.a. að markvissari kennslu í íslensku sem öðru tungumáli.
Samhliða stöðumatinu verður þróað rafrænt stuðningsefni til að efla grunnhæfni í íslensku sem öðru máli og skal það standa öllum til boða á netinu.
Uppfært 19.01.24 kl. 14:04