Kynnti sér fjölbreytt ferðaþjónustufyrirtæki af landsbyggðinni
Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra heimsótti Mannamót Markaðsstofu landshlutanna sem fram fór í Kórnum í Kópavogi. Mannamót Markaðsstofa landshlutanna er árleg ferðakaupstefna sem haldin er af Markaðsstofum landshlutanna og var lokaviðburður Ferðaþjónustuvikunnar í ár.
Mannamót markaðsstofanna er kynningarvettvangur ferðaþjónustunnar á landsbyggðinni og tækifæri til að koma á fundum fagaðila í greininni. Markmið og tilgangur viðburðarins er að skapa vettvang þar sem landsbyggðarfyrirtæki fá tækifæri til að kynna sína þjónustu og vöruframboð fyrir ferðaþjónustuaðilum sem staðsettir eru á höfuðborgarsvæðinu og mynda tengsl innan ferðaþjónustunnar.
„Mannamót dregur fram með mjög skýrum hætti hversu fjölbreytt úrval af flottri afþreyingu og ýmiskonar þjónustu er hringinn í kringum landið. Eitt af áherslumálum mínum sem ráðherra er að stuðla að aukinni dreifingu ferðamanna um landið, sér í lagi utan háannar sem bætir nýtingu innviða í ferðaþjónustu og treystir rekstrargrundvöll fyrirtækja í greininni,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.
Ferðaþjónustuvikunni 2024 er nú formlega lokið en menningar- og viðskiptaráðherra opnaði vikuna með ávarpi á Nýársmálastofu SAF, Íslenska ferðaklasans og KPMG.
Frekari upplýsingar um viðburðina og upptökur má finna á vef Ferðamálastofu.
Sjá einnig:
Ræddi mikilvægi sögustaða og menningararfs í ferðaþjónustu á Íslandi