Fréttaannáll innviðaráðuneytisins 2023
Fjöldi verkefna kom inn á borð innviðaráðuneytisins árið 2023.
Í byrjun apríl var Hermann Sæmundsson skipaður ráðuneytisstjóri og Árni Freyr Stefánsson skrifstofustjóri samgangna um miðjan maí.
Mikill þungi fór í húsnæðismálin, tímamótasamningur ríkis og borgar varðandi húsnæðisuppbyggingu var undirritaður í byrjun árs, ásamt samningi ríkisins við Vík í Mýrdal síðar á árinu. Stórfelld uppbygging hagkvæmra íbúða fyrir tekju- og eignaminni var kynnt og mælti Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, fyrir nýrri húsnæðisstefnu og landsskipulagsstefnu fyrir árin 2024-2038.
Ýmis verkefni tengdust samgöngumálunum. Haldinn var opinn fundur um hágæða grænar samgöngur milli höfuðborgarsvæðisins og Keflavíkur, einbreiðum brúm fækkaði enn frekar ásamt því að verkefnastjóri Sundabrautar tók til starfa og verkefnisstjórn Sundabrautar hélt sinn fyrsta fund. Varaflugvallagjald til uppbyggingar á innanlandsflugvöllum varð auk þess að lögum, en því er ætlað að tryggja fjármagn til uppbyggingar innviða á innanlandsflugvöllum.
Samið var um aukið fjármagn í átaksverkefni um úrbætur í aðgengismálum fyrir fatlað fólk. Römpum upp Ísland verkefnið gekk vel en þúsundasti rampurinn var vígður á árinu og verkefnið því á undan áætlun.
Jarðhræringarnar á Reykjanesskaga settu auk þess mark sitt á verkefni ráðuneytisins, en ýmis mál því tengt komu á borð ráðuneytisins, þó sérstaklega tengt húsnæðismálum.