Eldra fólk fengið til að rýna vefsíðu
Hópur eldra fólks mætti á dögunum í félags- og vinnumarkaðsráðuneytið til að aðstoða starfsfólk Gott að eldast við að rýna nýja upplýsingagátt þar sem safnað hefur verið saman upplýsingum um hvað eina sem tengist þjónustu fyrir eldra fólk, réttindum þess og heilsueflingu. Elstu þátttakendurnir í rýnihópnum voru á tíræðisaldri.
Markmiðið með upplýsingagáttinni er að gera fólki kleift að ná í öll svör á einum stað. Hingað til hafa upplýsingarnar verið dreifðar hér og þar og gjarnan flókið fyrir eldra fólk og aðstandendur þess að nálgast þær.
- Upplýsingagátt: Að eldast
Upplýsingagáttin hefur þegar verið opnuð og er nú sem fyrr segir í rýni. Með því að fara inn á island.is og smella á Að eldast eða velja tengilinn hér að ofan má nálgast yfirgripsmikla umfjöllun um heilsueflingu, dagdvalir og dagþjálfun, íbúðir fyrir eldra fólk, breytingar á heilsufari eldra fólks, eftirlaun og stuðning við aðstandendur – svo dæmi séu tekin. Í ítarlegri umfjöllun í hverjum flokki er lesandanum síðan beint í réttar áttir.
Manneskjurnar á bak við efnið á vefnum eru þær Guðrún Björg Sigurbjörnsdóttir og Vilborg Gunnarsdóttir. Þær segja að markmiðið með því að bjóða eldra fólki í ráðuneytið á dögunum hafi verið að fá ábendingar um það hvað brynni helst á fólki.
„Hvað er það sem eldra fólkið vill vita og finnst vanta upplýsingar um? Markmið okkar er að safna því öllu saman á einn stað og þess vegna er mikilvægt að heyra hvaða spurningar fólk hefur,“ segja þær og taka fram að margar gagnlegar ábendingar hafi borist sem þær muni nú vinna úr.
Rýnihópar með starfsfólki í öldrunarþjónustu og aðstandendum
Guðrún og Vilborg hafa einnig boðað starfsfólk í öldrunarþjónustu í sams konar rýni til að heyra hvaða efni það telur að safna þurfi saman. Þá verður rýnihópur haldinn með aðstandendum eldra fólks.
Vinnan við upplýsingagáttina á island.is er hluti af aðgerðaáætluninni Gott að eldast sem er samstarfsverkefni félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins og heilbrigðisráðuneytisins.
Aldurssamsetning þjóðarinnar breytist nú hratt. Eldra fólk lifir lengur en áður og er virkara og hraustara en nokkru sinni fyrr. Þjónusta við eldra fólk þarf að þróast í takt við þetta. Sú vegferð er hafin undir ofangreindu heiti: Gott að eldast. Stjórnvöld taka þar utan um málefni eldra fólks með nýjum hætti.
Nýja upplýsingagáttin rýnd og málin rædd.
Framtíðarsýn Gott að eldast er skýr: Það á að vera gott að eldast á Íslandi.
Ein aðgerðanna í aðgerðaáætluninni snýr að upplýsingagátt fyrir allt landið varðandi upplýsingar um þjónustu við eldra fólk og réttindi þess.