Starfshópur um aðgerðir gegn gullhúðun
Utanríkisráðherra hefur skipað starfshóp um aðgerðir gegn svokallaðri gullhúðun EES-reglna. Með gullhúðun er átt við þegar stjórnvöld herða á reglum EES-gerða eða bæta við heimasmíðuðum ákvæðum í innleiðingarfrumvörp sem ekki leiða af skuldbindingum samkvæmt EES-samningnum.
Í hópnum eiga sæti Brynjar Níelsson, lögmaður, sem verður formaður hópsins, dr. Margrét Einarsdóttir, prófessor við Háskólann í Reykjavík, og María Guðjónsdóttir, lögfræðingur Viðskiptaráðs.
„Það þarf að vanda vel til verka við innleiðingu EES-reglna svo þær leggi ekki meiri byrðar á herðar almennings og fyrirtækja en gerist annars staðar á innri markaðnum. Þá þarf að vera skýrt hvað leiðir af aðild okkar að EES og hvað sé heimasmíðað, þegar svo ber undir. Starfshópnum er ætlað að koma auga á og greina dæmi þar um og leggja fram tillögur til úrbóta hvað þetta varðar, en sams konar úttektir á einstaka málefnasviðum benda til þess að frekari aðgerða sé þörf,“ segir Bjarni Benediktsson, utanríkisráðherra.
Ríkisstjórnin samþykkti að skipa starfshópinn á fundi sínum 13. október, en nýlega var ráðist í samskonar úttekt á málaflokkum umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, sem kynnt var fyrr í dag. Starfshópurinn skal taka mið af fyrri vinnu og skoða einstök tilvik um gullhúðun sem hópurinn fær ábendingar um eða hafa komið fram á öðrum vettvangi.
Getur hópurinn lagt til almennar úrbætur eða vegna einstakra mála sem eru til þess fallnar að draga úr áhættunni á að gullhúðun eigi sér stað.