Frumvarp til laga um Nýsköpunarsjóðinn Kríu í Samráðsgátt
Frumvarp til laga um Nýsköpunarsjóðinn Kríu, nýjan sjóð á vegum stjórnvalda þar sem kraftar Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins (NSA) og Kríu - sprota og nýsköpunarsjóðs eru sameinaðir, hafa verið birt í Samráðsgátt. Nýsköpunarsjóðnum Kríu er ætlað að verða öflugur fjárfestingarsjóður sem leggur áherslu á fjölbreyttan, sveigjanlegan og alþjóðlega samkeppnishæfan stuðning við fjármögnunarumhverfi nýsköpunar á Íslandi. Áform um sameiningu sjóðanna var kynnt síðla árs 2023.
Opinber stuðningur leiði til öflugs og samkeppnishæfs atvinnulífs
Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra vinnur nú að endurskoðun og sameiningu sjóða sem falla undir málefnasvið ráðuneytisins og er sameining NSA og Kríu liður í þeirri endurskoðun. Sjóðirnir tveir hafa báðir það hlutverk að fjárfesta í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum og sérhæfðum sjóðum.
Mikilvægt er að opinber stuðningur við nýsköpun í formi fjárfestinga leiði til þess að atvinnulíf eflist hér á landi, samkeppnishæfni landsins aukist og fleiri fyrirtæki vaxi úr nýsköpunarumhverfinu og myndi sterka stoð undir hugverkadrifið atvinnulíf. Svo það megi verða þarf stuðningsumhverfi nýsköpunar að vera skilvirkt, sveigjanlegt, alþjóðlega samkeppnishæft og beina fjármagni þangað sem þörfin er mest hverju sinni.
Stuðningur í takt við þarfir á hverjum tíma
Nýsköpunarsjóðurinn Kría mun skapa sterka einingu í anda EIFO (áður Vækstfonden) í Danmörku og Tesi í Finnlandi. Báðir sjóðirnir eru dæmi um opinbera sjóði sem stuðla að virku fjármögnunarumhverfi og fjárfesta í sjóðum og fyrirtækjum til þess. Þá mun nýr, sameinaður sjóður geta boðið upp á stuðningsem hentar breytileika nýsköpunarumhverfisins og þörfum á hverjum tíma, svo sem með stuðningi við nýsköpunarverkefni sem kalla á langt þróunartímabil, verkefni sem eru vel á veg komin en vantar stuðning til frekari þróunar og vaxtar ásamt því að styðja við nýskapandi lausnir við samfélagslegum áskorunum.
Litið til samfélagslegra áskorana við ákvarðanatöku
Nýsköpunarsjóðurinn Kría mun horfa til samfélagslegra áskorana við ákvarðanatöku um fjármögnun. Hér geta komið til skoðunar atriði sem t.d. snúa að loftslagsmarkmiðum, umhverfissjónarmiðum og áskorunum á sviði heilbrigðis- og velferðarmála. Þá má einnig nefna áskoranir á borð við aukið frumkvöðlastarf á landsbyggðinni og þá staðreynd að hlutfall kvenna á meðal frumkvöðla er lágt á Íslandi.
- Umsagnafrestur í Samráðsgátt er til og með 12. febrúar 2024. Frumvarp til laga um Nýsköpunarsjóðinn Kríu.