Evrópustyrkir – auglýst eftir umsóknum innan skamms
Evrópusambandið hefur tilkynnt um fjárhæð styrkja til úthlutunar á sviði verkefna sem rúmast innan heilbrigðisáætlunarinnar EU4Health árið 2024. Íslenskar stofnanir og félagasamtök sem vinna að heilbrigðismálum eiga möguleika á aðild að skilgreindum samstarfsverkefnum eða beinum styrkjum til tiltekinna verkefna. Alls eru þetta 752,4 milljónir evra sem varið verður ýmist til samstarfsverkefna Evrópuþjóða eða í beina styrki til skilgreindra verkefna í heilbrigðismálum.
Í vinnuáætlun 2024 er lögð sérstök áhersla á eftirtalda þætti en nánari útfærsla á verkefnum innan þessara þátta verður auglýst á næstu dögum á vef heilbrigðisáætlunarinnar:
- Krabbameinsáætlun Evrópu
- Heilsuógnir yfir landamæri
- Brýnar heilsutengdar aðstæður, s.s. tengt stríði
- Stafræn þróun og innleiðing
- Stefnumótun í lyfjamálum fyrir Evrópu,
- Stefnumótun lyfjamála í Evrópu
- Heilsuefling og forvarnir gegn sjúkdómum, þ.m.t. geðheilsa
- Heilbrigðiskerfi og heilbrigðisstarfsfólk
- Alþjóðlega heilsu (global health) og alþjóðlegt frumkvæði
Heilbrigðisráðuneytið hvetur stofnanir og aðra aðila heilbrigðiskerfisins til að kynna sér auglýsta áætlun þegar nánari upplýsingar um styrkhæf verkefni liggja fyrir. EU4Health heilbrigðisáætlunin býður upp á mjög mikilvæg tækifæri fyrir Ísland til að sækja í faglegt og fjármagnað samstarf til ýmissa mikilvægra heilbrigðisverkefna.
Þátttaka Íslands
Ísland er aðili að heilbrigðisáætluninni sem tekur til áranna 2021 til 2027. Íslenskar stofnanir hafa sótt í heilbrigðisáætlunina og tekið þátt í samstarfsverkefnum með Evrópulöndum sem að stærstum hluta hafa verið fjármögnuð af EU4Health. Síðastliðin tvö ár hefur EU4Health samþykkt níu samstarfsverkefni með þátttöku íslenskra aðila og eitt íslenskt verkefni hlotið beinan fjárstyrk. Þeir aðilar sem leiða þessi verkefni hérlendis eru embætti landlæknis og sóttvarnalæknir, Lyfjastofnun, Samhæfingarstöð krabbameinsskimana hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Reykjalundur.
Tengiliðir fyrir frekari upplýsingar
Hjá embætti landlæknis eru starfandi tengiliðir við EU4Health heilbrigðisáætlunina (National Focal Points) sem hafa það hlutverk að veita upplýsingar og leiðbeiningar varðandi EU4Health áætlunina.
- Sólveig Karlsdóttir: [email protected]
- Rafn Magnús Jónsson: [email protected]