Öruggt umhverfi fyrir hinsegin börn í skólum, íþróttum og frístundum
Mennta- og barnamálaráðuneytið hefur gert samning við Samtökin '78 um stuðning við fræðslu- og ráðgjöf samtakanna. Ætlunin er að stuðla að öruggu umhverfi fyrir hinsegin börn og ungmenni í grunn- og framhaldsskólum og í íþrótta- og frístundastarfi.
Markmiðið er að þróað verði vandað kennsluefni og námskeið sem beinist sérstaklega að fagaðilum í skólastarfi. Unnið verði að því að allt fræðsluefni verði aðgengilegt á netinu og sett fram á skýran og einfaldan máta. Komið verður upp tengiliðaneti í grunn- og framhaldsskólum landsins um hinseginleikann og veitt fræðsla og ráðgjöf í grunn- og framhaldsskólum um hinsegin málefni. Þá munu samtökin sinna þróunarstarfi á landsbyggðinni.
Stuðningurinn nemur 25 m.kr. til loka þessa árs.