Mun styðja við framboðshlið húsnæðismarkaðarins
Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra mælti í dag fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 85/2007, um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald (rekstrarleyfisskylda gististarfsemi).
Með frumvarpinu er kveðið á um að rekstrarleyfisskyld gististarfsemi skuli vera í samþykktu atvinnuhúsnæði. Verði frumvarpið að lögum verður því ekki lengur heimilt að gefa út leyfi til reksturs gististaða í íbúðarhúsnæði, eins og núgildandi lög heimila og eitthvað hefur borið á.
Til að tryggja að umrædd breyting nái markmiði sínu er einnig með frumvarpinu kveðið á um skyldu til að tilgreina á aðaluppdráttum húsnæðis að húsnæði tilheyri notkunarflokki 4 samkvæmt byggingarreglugerð, þegar sótt er um rekstrarleyfi fyrir gististarfsemi.
Með þessu verða skýrari skil á milli íbúðarhúsnæðis og atvinnuhúsnæðis, þegar kemur að gistingu, og horft er til raunverulegrar notkunar húsnæðis.
„Frumvarpið er hluti af mótvægisaðgerðum ríkisstjórnarinnar á framboðshlið íbúðarhúsnæðis, á suðvesturhorni landsins, og liður í því að mæta eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði. Með frumvarpinu er þannig þrengt að þeim skilyrðum sem gilda um útgáfu rekstrarleyfis til gististarfsemi, og tryggt að það verði í samþykktu atvinnuhúsnæði. Til framtíðar er líklegt að þessi breyting leiði til þess að rekstraraðilar breyti starfsemi sinni til samræmis við lögin, og að framboð íbúðarhúsnæðis muni í kjölfarið aukast,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.
Rétt er að geta þess að frumvarpið hefur ekki áhrif á skráningarskylda heimagistingu til 90 daga, það er að segja gistingu sem heimilar einstaklingum að leigja út heimili sitt í allt að 90 daga á hverju almanaksári.