Hoppa yfir valmynd
14. febrúar 2024 Heilbrigðisráðuneytið

Ný sjálfsvígsforvarnaáætlun í mótun

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra - myndStjórnarráðið

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hefur falið starfshópi að gera tillögu að uppfærðri sjálfsvígsforvarnaáætlun. Áhersla er lögð á að aðgerðir áætlunarinnar tengist gildandi stefnu og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum, auk lýðheilsustefnu og heilbrigðisstefnu.

Undanfarin ár hefur vinna við sjálfsvígsforvarnir byggst á aðgerðaáætlun frá árinu 2018 sem unnin var af starfshópi embættis landlæknis á grundvelli þingsályktunar frá árinu 2016 um stefnu og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára. Við þá vinnu er starfshópnum einnig ætlað að hafa hliðsjón af Evrópuverkefninu Joint Action ImpleMENTAL 2022-2024 sem Ísland á aðild að og snýr m.a. að innleiðingu gagnreyndra sjálfsvígsforvarna að austurrískri fyrirmynd.

„Hvert sjálfsvíg hefur gáruáhrif á fjölmarga hópa og tap samfélagsins er mikið. Á grundvelli gildandi aðgerðaáætlunar hefur margt áunnist og mjög gott starf verið unnið. Frá þeim tíma sem aðgerðaáætlunin var sett hefur margt breyst bæði í þjóðfélaginu og í sjálfsvígsforvarnavísindum. Brýnt er því að uppfæra aðgerðirnar, aðlaga að nútímanum og nýjustu áherslum á þessu sviði, svo þær skili sem mestum árangri fyrir fólkið í landinu“ segir Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra.

Gert er ráð fyrir að starfshópurinn skili uppfærðri aðgerðaáætlun í sjálfsvígsforvörnum fyrir lok ágúst næstkomandi. Aðgerðirnar sem hópurinn leggur til skulu vera kostnaðarmetnar og skilgreindar út frá tilgangi, ábyrgð, samstarfsaðilum og samfélagsáhrifum. 

Skipan hópsins

  • Guðrún Jóna Guðlaugsdóttir, verkefnastjóri sjálfsvígsforvarna hjá embætti landlæknis, formaður

  • Ingibjörg Sveinsdóttir, heilbrigðisráðuneyti

  • Sigrún Sigurðardóttir, prófessor við heilbrigðisvísindasvið Háskólans á Akureyri, fyrir hönd Geðhjálpar

  • Liv Anna Gunnell, sálfræðingur, Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu,

  • Jóhanna María Eyjólfsdóttir, djákni, fagstjóri Sorgarmiðstöðvar

  • Sigurður Páll Pálsson, geðlæknir, Landspítala

  • Grétar Björnsson, félagsráðgjafi, fyrir hönd Hugarafls

  • Ásta Ingibjörg Pétursdóttir, prestur

  • Guðríður Haraldsdóttir, sálfræðingur, fyrir hönd Geðheilsumiðstöðvar barna

  • Tómas Kristjánsson, sálfræðingur og dósent við HÍ, fyrir hönd Píetasamtakanna

Starfshópurinn getur kallað til sín aðra sérfræðinga og haghafa eftir þörfum, s.s. fulltrúa frá hagsmunasamtökum, mennta- og barnamálaráðuneyti, félags- og vinnumarkaðsráðuneyti, dómsmálaráðuneyti og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta