Samningar við Kvenréttindafélag Íslands og Samtökin ´78 undirritaðir
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra skrifaði í dag undir samninga við annars vegar Kvenréttindafélag Íslands og hins vegar Samtökin ´78.
Samstarfssamningur við Kvenréttindafélag Íslands sem Tatjana Latinovic, formaður félagsins, undirritaði ásamt forsætisráðherra snýr að ráðgjöf, fræðslu og upplýsingagjöf um jafnrétti kynjanna. Samkvæmt samningnum mun Kvenréttindafélagið sinna ýmis konar verkefnum svo sem fræðslufundum, námskeiðahaldi, gerð upplýsingaefnis á íslensku og ensku og kynningu á kvennasamningi Sameinuðu þjóðanna.
Forsætisráðuneytið greiðir Kvenréttindafélaginu 12 milljónir króna á ári til að sinna umræddum verkefnum en samningurinn er til fjögurra ára.
Styrktarsamningurinn við Samtökin ´78 sem Álfur Birkir Bjarnason, formaður samtakanna, undirritaði ásamt forsætisráðherra snýr að stuðningi við rekstur og fræðslu. Samningurinn er til fjögurra ára og greiðir forsætisráðuneytið samtökunum 40 milljónir árlega á samningstímanum. Samkvæmt samningnum skulu Samtökin ´78 m.a. sinna fræðslu um málefni hinsegin fólks sem beinist sérstaklega að fagaðilum sem sinna þjónustu við almenning.
Einnig var undirritaður samningur um sérstakan 12 milljóna króna styrk til Samtakanna ´78 sem fjárlaganefnd Alþingis samþykkti í lok árs 2023 til að styðja almennt við rekstur samtakanna og skjóta styrkari fótum undir starfsemina en um einskiptis fjárframlag er að ræða.